Nýlega kom út vegleg göngubók og kort um Barðastrandarhrepp við norðanverðan Breiðafjörð. Þar er fallegt gönguland með kjarri vöxnum dölum, tignarlegum fjöllum, gulum sandi og eyjum sem lóna úti fyrir. Félagsmönnum FÍ býðst bókin á 10% afslætti ef bókin er keypt á skrifstofu FÍ, Mörkinni 6.
Barðastrandarhreppur – göngubók er eftir Elvu Björgu Einarsdóttur mannfræðing sem er fædd og uppalin á Seftjörn á Barðastsrönd. Í bókinni lýsir hún gönguleiðum um sveitina sína auk þess að „ganga“ Barðastrandarhrepp með lesendum frá mörkum hans í austri við Skiptá í Kjálkafirði að Stálfjalli í vestri. Þar tekur hún fyrir örnefni, sögu, jarðfræði, fornleifar o.fl. sem verður á vegi hennar.
Í fyrri hluta bókarinnar er 44 gönguleiðum lýst og eru þær af öllu tagi; langar (12 klst) og stuttar (5 mín), erfiðar og léttar, um fjöll, dali og fjörur, upp með ám og að vötnum, á slóðir útlaga og í spor prjónakonu, um gamlar alfaraleiðir og nýjar leiðir sem leiða göngufólk að fallegum stöðum og leyndum. Vel væri hægt að uppnefna Barðaströnd og kalla hana Barnaströnd því að þar er mikið fyrir börn að vera við. Gönguleiðirnar eru merktar með táknum fyrir barnagönguleiðir, gamlar alfaraleiðir, sögugöngur, jarðfræðigöngur, fornleifagöngur og hringgöngur.
Útlit bókarinnar er óhefðbundið miðað við göngubók, en í samstarfi við Björgu Vilhjálmsdóttur hönnuð fékk bókin á sig endanlega mynd. Hún er karrýgul eins og skófirnar í Vestureyjum Breiðafjarðar, kápan er hálfstíf og klædd striga og á hana eru þrykktar leiðirnar sem höfundur hef gengið um Barðastrandarhrepp og á saurblöðum hef Elva Björg krotað ofan í leiðirnar. Bókin fer einstaklega vel í hendi og auðvelt er að faðma hana eða stinga ofan í bakpoka því að hún gefur eftir. Striginn þolir ýmislegt og bókin eldist vel og verður persónulegri með hverri ferðinni.
Barðastrandarhreppur – göngubók er 328 síður og fjöldi mynda eru í bókinni og kort með merktri gönguleið við hverja leið sem Ólafur Valsson kortagerðamaður hefur unnið. Bókinni fylgir teiknað þrívíddarkort eftir Kristbjörgu Olsen myndlistakonu. Þar öðlast lesandinn yfirsýn þess er flýgur yfir svæðið og tengir þannig landslag og byggðalög á annan hátt en hægt er með hefðbundnu korti. Kortið er af óvenjulegri stærð, 160 cm á lengd og 21 cm á hæð. Með þessu vill Kristbjörg undirstirka hversu langur Barðastrandarhreppur er – fullt fang af landslagi. Hægt er að kaupa kortið sér, en aftan á því eru 12 gögnuleiðir um Barðastrandarhrepp, á íslensku og ensku, og eru þær merktar inn á kortið. Hvort um sig, bók og kort, styður hitt en stendur einnig eitt og sér.
Bókin er samvinna Elvu Bjargar og sveitunga hennar – Barðstrendinga. Þannig hefur hún heimsótt hvern bæ og rætt við fólkið og í sameiningu hafa þau fundið staði og sögur til að segja frá. Barðstrandarhreppur – göngubók er byggð á vettvangsferðum, samtölum við heimamenn og fræðafólk, heimildavinnu og rannsóknavinnu í gömlum skjölum, bókum og kortum. Ómetanlegt er að njóta leiðsagnar þeirra sem til þekkja og hafa nýtt sér gamlar alfaraleiðir á milli staða áður en bílar komu til.
Markmiðið með útgáfu bókarinnar er að benda fólki á áhugaverða staði að skoða í Barðastrandarhreppi og bjóða þannig heim. Bókinni til stuðnings er vefurinn www.bardastrandarhreppur.net.
Næsta laugardag mun Elva Björg halda fyrirlestur á vegum Nafnfræðifélagsins um göngu sína um Barðastrandarhreppinn þar sem örnefnin eru í öndvegi.
Í fréttatilkynningu segir: ,,Það er sérstök nálgun á viðfangsefni að ganga það í sig – il við jörð – finna áhrif þess á líkamann og hvernig þau vara jafnvel þó að þú sért víðsfjarri. Tengja betur með samtali við heimamenn – sögur og tengsl við nútíma og fortíð, og fara svo á dýptina í örnefnaskránum. – Það er eitthvað algjörlega sérstakt sem gerist þegar örnefnalagið bætist við, leggst yfir land og útsýni, hampar einu hærra en öðru, færir nýja dýpt, tilfinningu og vitund."
Fyrirlesturinn verður laugardaginn 29. október í stofu 106 í Odda í Háskóla Íslands og stendur frá 13:15 til 14:00.