Ný skálavarðahús tekin í notkun

Í sumar hefur verið unnið að byggingu tveggja nýrra húsa fyrir skálaverði Ferðafélags Íslands, annars vegar í Álftavatni og hins vegar í Hrafntinnuskeri.

Húsið í Álftavatni er komið á sinn stað og í notkun. Það er 70 fm þjónustuhús sem bæði nýtist fyrir afgreiðslu og móttöku ferðamanna og sem dvalarstaður skálavarða. Þetta hús er á sama stað og gamla skálavarðahúsið í Álftavatni sem var komið á aldur og var fjarlægt af staðnum.

Þá er nýtt skálavarðahús fyrir Hrafntinnusker að verða tilbúið (sjá mynd að ofan) og stefnt er að því að flytja það upp í Sker undir lok næstu viku. Það hús er 40 fm þjónustu- og skálavarðahús sem verður sett niður á sökkul sem var steyptur fyrir nokkrum árum vestan megin við núverandi skála, þ.e. í átt að gilinu og hverasvæðinu.

Stefán Jökull Jakobsson, yfirskálavörður FÍ, segir að tilkoma þessara húsa muni ekki aðeins stórbæta þjónustu við ferðamenn á svæðinu heldur ekki síst verða mikil aðstöðubót fyrir skálaverði félagsins.

,,Það er mikil vinna að sinna skálavörslu á Laugaveginum og skálaverðir þurfa að eiga möguleika á einhverjum prívat tíma, þó ekki væri nema til að geta náð góðum nætursvefni. Það gerir þá betur í stakk búna til að sinna þeim fjölbreyttu verkefnum sem bíða á hverjum degi," segir Stefán Jökull.

Skali.Alftavatn.jpg
Nýja skálavarðahúsið híft á sinn stað í Álftavatni