Nýir vegprestar á Laugaveginum

Ferðafélag Íslands vinnur að því að setja niður nýja vegpresta á Laugaveginum og eru tveir þegar komnir á sinn stað.

Alls verða vegprestar settir niður á 6-8 lykilstöðum við Laugaveginn, frá Landmannalaugum og niður í Þórsmörk. Prestarnir eru sérstaklega merktir Laugaveginum svo að enginn á að vaða í villu með það, á hvaða leið hann er og að auki eru svo hátt í 30 vegvísar sem eru festir á prestana og vísa í næstu skála, bæði fram veginn og til baka, ásamt upplýsingum um vegalengdir. Hönnuður er Árni Tryggvason.

Skilti_a_Laugavegi_opt.jpg
Vegprestur austan Hattfells. Myndina tók Kerstin Langenberger.

Þeir tveir vegprestar sem þegar er búið að setja niður á Laugaveginum eru báðir á gönguleiðinni frá Álftavatni í Emstrur / Botna. Annar þeirra er skammt sunnan við brúna yfir Innri Emstruá, þar sem gönguleiðin beygir út af veginum um Fjallabak syðra. Hinn presturinn er tæpum þremur kílómetrum sunnar, við læk rétt austan við Hattfell, skömmu áður en komið er í Botnaskálana (sjá meðfylgjandi mynd).

Vegvísarnir eru unnir í 3-5 mm Corten stál sem hefur þá eiginleika að ryðga eðlilega á skömmum tíma og haldast í því ástandi í áratugi. Sem dæmi þá voru Kjarvalsstaðir í Reykjavík klæddir því efni fyrir um 50 árum og hefur efnið haldist þar óraskað síðan. Texti vegvísanna er skorinn beint í stálið og þarfnast því ekki neins viðhalds. Efnið fellur vel að landslagi og er alltaf læsilegt nema hugsanlega þegar ísing hleðst á skiltin, eins og búast má við með öll skilti.