Nýtt handrið á göngubrú

Valdimar G. Valdimarsson og Jóhannes Ellertsson við verklok
Valdimar G. Valdimarsson og Jóhannes Ellertsson við verklok

Í haust var unnið að lagfæringum á göngubrúnni yfir Skógá, á leiðinni upp á Fimmvörðuháls. Handrið brúarinnar var orðið afar lélegt og öryggi göngumanna í hættu.

Ferðafélagið hafði fengið ábendingar um ástand brúarinnar og eftir að búið var að afla tilskilinna leyfa var ráðist í framkvæmdir og Valdimar G. Valdimarsson, rafeindavirki  fenginn í verkið.

Valdimar er gamall og mikilreyndur brúarsmiður og smíðaði meðal annars göngubrúna yfir Emstruá á Laugaveginum og yfir Fúlukvísl á Kili. Hann tók mál af brúnni og forsmíðaði svo nýtt handriðið frá grunni heima í bílskúr.

Annar þúsundþjalasmiður og velunnari Ferðafélag Íslands, Jóhannes Ellertsson, flutti svo allt efnið frá Reykjavík að Skógum og upp að brúnni.

Þegar til kom, reyndist undirbúningur smíðarinnar svo vandaður að það tók aðeins um fjórar klukkustundir að setja handriðið upp.

Handriðið er úr galvaniseruðu pípulagningarefni sem hefur reynst gríðarlega vel á öðrum álíka snjóþungum svæðum á Íslandi. Þetta efni bognar hvorki né brotnar auðveldlega undan snjóþyngslum, eins og timbrið gerir.

 

Göngubrú fyrir lagfæringu  Göngubrú eftir lagfæringu

Hér má sjá göngubrúna yfir Skógána fyrir og eftir lagfæringu - meira að segja veðrið batnaði við verkið :)