Talsverður snjór er á hálendi Íslands þessi misserin eins og hefðbundið er á þessum árstíma. Djúpur snjór liggur til dæmis yfir ölllu Fjallabaki eins og meðfylgjandi mynd sýnir en myndin er tekin í Hvanngili um síðustu helgi. Þá var fallegt veður en hins vegar hefur lítið verið um mannaferðir á Fjallabaki að undanförnu sökum illviðra.
Skálavörður er nú komin aftur til starfa í Landmannalaugum og verður þar fram á vor en talsvert er um bókanir í skála FÍ í Landmannalaugum næstu mánuði. Hægt er að fylgjast með lífinu í Laugum á fésbókarsíðu Landmannalauga.
Ef fólk er að hugsa sér til hreyfings til fjalla og ætlar að gista í skálum Ferðafélags Íslands eða nota aðstöðuna þar þá þarf að panta gistingu á skrifstofu FÍ í síma 568 2533 og nálgast lykla þar. Skrifstofan er opin frá kl. 10 til 17 alla virka daga.
Hvanngil á Fjallabaki. 24. janúar, 2016.