Öflug starfsemi og ný verkefni, segir Ólafur Örn

Olafur-Orn-450
Starfið öflugt og ný verkefni, segir Ólafur Örn Haraldsson forseti Ferðafélag Íslands.

Sterkur þráður í þjóðlífinu

„Ferðafélagið hefur frá upphafi verið frumkvöðull á mörgum sviðum þar sem ný félög og margvísleg ferðaþjónusta hafa komið í kjölfarið. Oft hafa myndast vináttutengsl milli fólks í ferðum okkar og síðan tekur sá hópur sig til og ferðast framvegis á eigin vegum.  Það teljum við góðan árangur sem krefst þó þess að félagið þarf stöðugt að vera lifandi, með frjóar hugmyndir og nýjungar í starfi sínu,“ segir Ólafur Örn Haraldsson forseti Ferðafélag Íslands.

Nýmæli í starfinu

Starf Ferðafélag Íslands stendur í miklum blóma þessar myndir. Félagsmenn eru um sjö þúsund talsins, nýjum félagsmönnum fjölgar og ferðir félagsins njóta vinsælda.

Í ár verða ýmis nýmæli í starfinu. Félagið er til dæmis að hefja samstarf við Háskóla Íslands og þar gefast tækifæri til að ferðast og njóta leiðsagnar vísinda- og fræðimanna þessarar æðstu menntastofnun þjóðarinnar. Einnig er félagið í samstarfi við heilbrigðis- og velferðarþjónustuna með ferðum fyrir eldri borgara, atvinnuleitandi og eins gönguferðir fyrir fólk sem glímir við offitu. Það verkefni er í samstarfi við Reykjalund og rannsóknarsvið Háskóla Íslands.

„Ég býst einnig við að fólk muni sjá ýmsar fleiri nýjungar á næstunni m.a. aukna og bætta þjónustu á Laugaveginum. Ferðamenn þar hafa lengi óskað eftir að geta keypt ýmsan varning og eitthvað matarkyns í skálunum þar. Þetta er í samræmi við það sem við þekkjum úr fjölsóttari skálum í Noregi, Ölpunum og víðar.“

Héldum okkar striki

Gosið í Eyjafjallajökli veitti Ferðafélagi Íslands þungar búsifjar eins og öðrum nærri jöklinum. Göngubrúin á kvíslinni neðan Gígjökuls hvarf í flaum jökulflóðs og í Langadal spillti aska bæði gróðri og búnaði og gríðarlegt hreinsunarstarf kallaði á fé og fúsar hendur.

„Okkur var kærkomið að fá styrk til hreinsunarstarfs úr Pokasjóði. En mesti fjárhagslegi skaðinn varð vegna þess að ferðamönnum í Mörkinni snarfækkaði og reyndar framan af sumri fækkaði á öllum Laugaveginum,“ segir Ólafur sem bætir við að þrátt fyrir þetta hafi félagið ákveðið að halda sínu striki með fjárfestingar við skálana á þeim slóðum.

„Nú njótum við þessara fjárfestinga þegar við eigum von á fleiri ferðamönnum á þessu svæði en nokkru sinni fyrr. Það er samdóma álit flestra að næsta sumar verði mikill ferðamannastraumur, ekki síst vegna þeirrar miklu athygli sem gosi vakti,“ segir Ólafur Örn.

Góð íslensk gildi

Ólafur segir að Ferðafélag Íslands sem í ár verður 84ra ára hafi þrátt fyrir árin tekist að halda í þau gildi sem allt frá fyrstu tíð hafi verið kjarninn í starfi þess. Félagið eigi að vera opið framfara- og menningarfélag á  víðu sviði ferðamennsku, náttúruskoðunar, þekkingar, hollrar hreyfingar að ógleymdri skemmtuninni í góðum félagsskap.

„Margir líta á Ferðafélag Íslands sem sterkan og ómissandi þráð í íslensku þjóðlífi. Hinn mikli fjöldi félagsmanna og þátttaka í ferðum og starfi félagsins segir sína sögu. Ég met afar mikils að fjöldi fólks er í Ferðafélaginu eingöngu til þess að tryggja að þessi þáttur hvorki trosni né slitni um leið og það nýtur þess að fá árbókina og annað efni frá félaginu. Margt af þessu fólki ferðast sjaldan eða aldrei með félaginu en með þátttöku sinni og félagsgjöldum tryggir það starfsemina. Fólk metur þá merku sögu og hefðir sem liggja í rúmlega 80 ára starsemi félagsins og telur að slíkt félag þurfi að standa traustum fótum. Sennilega telja margir að Ferðafélag Íslands sé einn af merkisberum góðra íslenskra gilda.“