Opnar heilsubótargöngur á Úlfarsfell

Ferðafélagið býður upp á opnar og ókeypis göngur á Úlfarsfell kl. 17:45 á hverjum fimmtudegi til jóla undir leiðsögn Reynis Traustasonar, rithöfundar og blaðamanns.

Úlfarsfell er fjall í borg þar sem það rís rúma 300 metra upp á mörkum Mosfellsbæjar og Reykjavíkur. Ganga á fjallið tekur tæpar 2 klukkustundir og alls eru þá gengnir um 4 kílómetrar.

Reynir_a_Ulfarsfelli.jpg
Reynir Traustason leiðir hóp á Úlfarsfell. Mynd: Róbert Reynisson

Nú í vetur verður boðið upp á heilsubótargöngur á fjallið á hverjum fimmtudegi til jóla eða til fimmtudagsins 22. desember, í alls átta skipti. Reynir Traustason mun leiða göngurnar en hann á að baki hartnær 900 göngur á fjallið frá árinu 2009.

Lagt er upp með að ganga á hraða sem hentar flestum. Sungið er á hæsta tindi og æfingakerfið Haukurinn tekið. Þá er sögustund við ákveðin tækifæri.

Gangan hefst á bílastæðinu í Úlfarsárdal kl. 17:45 og lýkur um kl. 19:30. Sjá kort hér að neðan.

Ekkert kostar að taka þátt í göngunni sem er á færi langflestra. Fólk þarf að vera í skjólgóðum klæðnaði og með höfuðljós og smábrodda.


Kort sem sýnir upphafsstað fimmtudagsgangna á Úlfarsfell