Opnun Hellismannaleiðar 25. júní

Nefsholti 15. júní 2009

Ágæti viðtakandi

Opnun Hellismannaleiðar 25. júni 2009 - boðsbréf

Með bréfi þessu er þér/ykkur boðið að vera við opnun Hellismannaleiðar fimmtudaginn 25. júní nk. kl. 10:45. Opnun gönguleiðarinnar fer fram á Rjúpnavöllum í Landsveit. Frá kl. 10:00 verður opið hús á Rjúpnavöllum, þar sem gestum gefst tækifæri á að skoða ferðaþjónustuna á staðnum og þiggja veitingar.

Eftir fomlega opnum  kl. 11:00 býðst gestum að ganga af stað með hópi fólks, sem ætlar formlega að opna gönguleiðina. Fararstjóri verður Guðni Olgeirsson frá Nefsholti, en hann er einn þeirra sem unnið hefur ötullega að stikun leiðarinnar.

Hellismannaleiðin er vel stikuð gönguleið frá Rjúpnavöllum í Landmannalaugar. Fyrsta dagleiðin frá Rjúpnavöllum í Áfangagil er um 20 km, þaðan er ein dagleið í Landmannahelli, rúmlega 20 km og þriðja dagleiðin er úr Landmannahelli í Landmannalaugar, um 16 km. Gönguleiðin er í heild um 56 km sem er svipað og Laugavegurinn frá Landmannalaugum í Þórsmörk. Hellismannaleiðin er kærkomin viðbót við fjölbreytta flóru gönguleiða að fjallabaki og miklir möguleikar skapast með því að hafa vel stikaða gönguleið allt frá Rjúpnavöllum að Skógum, þ.e. Hellismannaleið, Laugaveg og Fimmvörðuháls, samtals um 130 km gönguleið. Nánari upplýsingar um Hellismannaleiðina má finna hér: http://www.nat.is/gonguleidirisl/gonguleidir_halendid_hellismannaleid.htm

Á þeim fjórum stöðum sem nefndir eru er rekin vaxandi ferðaþjónusta og hægt er að kaupa tjaldgistingu og gistingu í skálum á öllum stöðunum. Verkefnið er unnið í samstarfi þessara aðila, undir forystu Hellismanna ehf. sem reka ferðaþjónustu í Landmannahelli.

Til að komast að Rjúpnavöllum af þjóðvegi 1, er beygt upp Landveg nr. 26 við Landvegamót í Rangárvallasýslu. Eknir eru um 40 km upp Landveg um Holtin og upp Landsveitina. Staðurinn er merktur og sést vel af Landveginum. Bundið slitlag er langleiðina að Rjúpnavöllum.

Nánari upplýsingar um ferðaþjónustuna á gönguleiðinni má sjá á eftirtöldum heimasíðum:
Rjúpnavellir:                http://frontpage.simnet.is/rjupnavellir
Áfangagil:                   www.afangagil.info
Landmannahellir:        www.landmannahellir.is
Landmannalaugar:      www.fi.is

Ferðaþjónustaðilar á stöðunum fjórum vonast til að þið sjáið ykkur fært að mæta við opnun gönguleiðarinnar og þiggja veitingar.

Hjálagt:
Nánari upplýsingar um gönguleiðina

Kærar kveðjur,
f.h. undirbúningshóps,

___________________________
Engilbert Olgeirsson
stjórnarmaður í Hellismönnum ehf.