Opnunarferð - Valgeirsstaðir í Norðurfirði 30. maí - 4. júní

Skálar Ferðafélags Íslands opna nú hver af öðrum.  Í mörgum skálum eru fóstrar sem annast opnun og lokun og sinna ýmsu viðhaldi í skálum.  Á Valgeirsstöðum í Norðurfirði er Jóhanna Heiður Gestsdóttir fóstri ásamt fjölskyldu sinni.

Opnunarferð Valgeirsstaðir í Norðurfirði 30.05 - 04.06 2013

Ég mætti í fjörðinn fagra á föstudegi ásamt föruneyti mínu en Valgerður frænka frá Norðurfirði hafði komið á fimmtudegi ásamt fjölskyldu sinni.  Þvottur blakti á snúrunum í blíðunni sem kom mér á óvart því ég vissi að vatnsleiðslan hafði losnað frá brunninum í vetur og átti eftir að tengja hana.  Það gaf þá augað leið að þvottavélin var ónothæf.  Á hlaðinu stóð Valla frænka glaðvær ásamt dætrum sínum og kom á daginn að þær hefðu þvegið gardínurnar og fleira í höndunum því þannig var það gert í Norðurfirði í gamla daga. 

hasaeti_minnst

 Maðurinn minn hafði farið í loftköstum norður með drekkhlaðinn bíl fyrr í vikunni með allt það góss sem við þurftum á að halda fyrir þessa opnunarferð því að hann mátti ekki vera að því að staldra við þar sem leið hans lá á Hvannadalshnúk sömu helgi.  Hann stóð í ströngu þennan tæpa sólarhring sem hann stoppaði á Valgeirsstöðum.  Leki á salerninu og leki í eldhúsinu og vatnslögnin í útihúsin svamlandi laus um í síkinu. Hann náði að lagfæra lekana en lét annað bíða komu okkar. Við náðum að tengja vatnslögnina sem vesen er á hvert einasta ár og það er brýnt að koma þessum vatnsmálum í stand og halda áfram með leiðslu inn í  Valgeirstaði og tengja brunninn sem Fí og Arinbjörn á næsta bæ eru þegar byrjaðir á.  Það er verið að leggja rafstreng í sveitinni  í sumar og nú er lag að láta rista fyrir vatnslögn frá brunninum og leggja að Valgeirstöðum.  Tækin verða á staðnum og kostnaður því í algeru lágmarki. Lagnirnar eru til á Valgeirstöðum og það eina sem vantar upp á eru tengingar og mannskapur til að leggja rörin.

 Við skiptum út gluggum í eldhúsinu og máluðum þá.  Þeir gömlu voru orðnir ansi fúnir en þeir voru smíðaðir af afa Sveinbirni fyrir um 40 árum síðan úr rekaviðsdrumbum sem rekið höfðu í land í Norðurfjarðarfjörunni.  Hlýtur að teljast ágætis ending á gluggum það. Við skelltum svo einni umferð af „Ferðafélgasgrænum“ á þær hliðar íbúðarhússins sem var farið að láta á sjá og blettuðum restina.  Við skiptum út klóseti á litla salerninu og lagfærðum girðinguna ( núna við síkið og aðalveginn ) þar sem að 10 staurar höfðu brotnað í vetrarveðurs-ofsanum en Krossnesbændurnir sköffuðu okkur rekaviðsstaura.  Við kipptum einnig með okkur þunnum krossviðsplötum sem við lögðum í botnana á kojunum.  Bilið á milli rimlana í þeim var um 13 cm og gerði það að verkum að dýnurnar sigu með fólkinu í. Þetta ættu að verða þægilegri svefnstæði fyrir vikið.  Veðrið var eins og köflótt og hugast gat en oftast gott og við náðum að klára allt það sem við ætluðum þó svo talsverður öldugangur hefði verið í málningardollunum síðasta daginn en þá var 15 stiga hiti og hífandi rok.

 Við vorum 16 manns í þessari ferð.  Nokkur af systkinum pabba, Gests Sveinbjörnssonar komu með í þetta skiptið.  Elsta systirin Guðrún. Yngsta systirin Valgerður og eini  bróðirinn Guðjón.  Hrikalega öflugt og duglegt fólk allt saman og gaman að hafa þau með.  Við vorum svo þarna nokkrar dætur Norðurfjarðarsystkinanna ásamt mökum og dassi af börnum.  Allir sem einn unnu svo baki brotnu við þrif og allskyns framkvæmdir alla helgina.  Alltaf brjálað að gera á þessum stað enda stór eign og margir fermetrar og í ansi mörg horn að líta.

 Hluti af hópnum fór heim á sunnudeginum.  Annað hollið i á mánudeginum og við mamma og pabbi og Gauji frændi á þriðjudeginum. Mamma og pabbi hafa verið með í öllum okkar vinnuferðum síðan við gerðumst Valgeirsstaðafóstrar árið 2008 og þau eru alltaf spennt fyrir ferðunum. Held samt að ég sé að ganga frá pabba gamla sem er komin á áttræðisaldur en hann er gersamlaga óstöðvandi í framkvæmdargleðinni á sínum gamla bæ.  Sjálf er ég óvinnufær vegna bakverkja en ég reiknaði s.s. með því að ég myndi ekki þola eitt stykki vinnuferð norður á Strandir  í því ástandi sem ég er.  Það er mér algerlega ógerlegt að taka ekki þátt í gleðinni sem ríkir við þessar framkvæmdir okkar á gamla bænum okkar.

 P.S  Skálavörðurinn  og Sædís dóttir hennar komu við hjá mér í gær á leið sinni í Valgeirstaði  og ég gaf Sædísi litlu háf til þess að hafa með sér í Norðurfjörð en slíkt er nauðsynlegt að hafa með sem staðalbúnað ef maður er 5 ára í ævintýraleit á Ströndum

Sumarkveðja Jóhanna Heiður Gestsdóttir Valgeirsstaðafóstra