Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélagsins, fjallar um nafngiftir í Friðlandinu að Fjallabaki á fundi hjá Nafnfræðifélaginu næstkomandi laugardag 11. nóvember.
Fundurinn verður haldinn í stofu 202 í Odda í Háskóla Íslands og hefst kl. 13:15.
Í erindi Ólafs beinir hann sjónum að Friðlandinu að Fjallabaki á Landmannaafrétti en örnefni þar eru tiltölulega ný vegna þess að aðeins er liðin rúmlega hálf önnur öld frá því að ferðir hófust þar að nokkru marki. Fram undir miðja 19. öld var aðeins smalaður hluti svæðisins m.a. vegna ótta við útilegumenn.
Í fyrirlestrinum verða örnefnin greind eftir uppruna og sýndar myndir því til stuðnings en Torfajökulsöskjuna og svæðið í nágrenni Landmannalauga telja margir eitt fegursta svæði landsins.
Ólafur Örn skrifaði árbók Ferðafélagsins 2010 og fjallaði hún um Friðlandið að Fjallabaki.
Fundurinn er ókeypis og öllum opinn.