Fræðslufundur verður haldinn í Nafnfræðifélaginu laugardaginn 24. október nk., kl. 13, í Öskju, húsi Háskóla Íslands, stofu N 130. Guðjón Ármann Eyjólfsson fyrrv. skólameistari Stýrimannaskólans í Reykjavík flytur fyrirlestur um örnefni í Vestmannaeyjum, landsheiti, jarðfræði og fiskimið, og sérstaklega um hverja eyju með myndum úr Árbók Ferðafélags Íslands 2009, Vestmannaeyjar, sem kom út um miðjan júní sl. vor. Guðjón Ármann er aðalhöfundur Árbókarinnar, en auk hans rita jarðfræðingarnir Ingvar A. Sigurðsson og dr. Sveinn P. Jakobsson um jarðsögu Vestmannaeyja og Jóhann Óli Hilmarsson um fuglalíf í Vestmannaeyjum.
Ritstjóri var Jón Viðar Sigurðsson jarðfræðingur.
Bókin var prentuð í Odda, ríkulega myndskreytt, 319 bls. að lengd. Ef tími vinnst til verður fjallað um helstu skriflegar heimildir um örnefni í Vestmannaeyjum og þá sérstaklega bók dr. Þorkels Jóhannessonar sem kom út árið 1938.
Einnig verður stuttlega fjallað um viðhorf og lýsingu ensks togaraskipstjóra á Eyjamiðum fyrir tíma ratsjárinnar og sögu á bak við nafnið á fiskimiði. Félagsmenn eru hvattir til að sækja áhugaverðan fyrirlestur og taka með sér gesti.