Óþrjótandi ævintýraleiðir - Ferðaáætlun FÍ 2009

Mörg nýmæli í ferðaáætlun ársins, segir Sigrún Valbergsdóttir formaður ferðanefndar FÍ:

Óþrjótandi ævintýraleiðir

Ýmis nýmæli eru áberandi í ferðaáætlun Ferðafélags Íslands fyrir árið 2008. Má segja að þau nái til allra þjóðfélagshópa - allt frá þeim sem munu eyða sumrinu akandi barnavagni á undan sér til þeirra sem leita uppi áskorun í bröttum hlíðum og fjallatindum. Og allt þar á milli. „Sérstaklega er gaman að hugsa til fjölskylduferða í Þórsmörk undir samheitinu María María. Fjallatindarnir fimm eru nýmæli, Tröllakirkja ofan Hítarvatns, Helgrindur á Snæfellsnesi, Tröllakirkja á Holtavörðuheiði, Kirkjufell í Grundarfirði og Botnssúlur. Það verður gaman að fylgjast með þeim sem spreyta sig á þessum fjöllum,“ segir Sigrún Valbergsdóttir formaður ferðanefndar FÍ.

Ferðaáætlunar hvers árs er jafnan beðið með nokkurri eftirvæntingu. Í margra vitund er áætlunin „bæklingur bjartsýninnar“ ef svo má að orði komast. Það veit enda gott þegar í boði eru fjölbreyttar ferðir þar sem landið allt er undir. Sigrún Valbergsdóttir segir að í flokki sumarleyfisferða séu Laugavegs- og Hornstrandaferðir sígildar og hafa verið lengi. Ýmsar fleiri ferðir séu einnig að festa sig í sessi. Til dæmis Vatnaleiðin um borgfirsku Alpana og ferð í Héðinsfjörð og Hvanndali. Þá hefur Ferðafélagið lengi staðið fyrir ferðum í Þjórsárver.

 

Þjóðlegt og rómantískt

Á síðasta ári bauð FÍ upp á matarmenningarferð um Skarðsströnd og Reykhólasveit sem vakti mikinn áhuga. Í ár er boðið upp á aðra slíka í nýrri útfærslu. „Þessi ferð hefur yfir sér i þjóðlegan og rómantískan blæ með siglingu um Breiðafjörðinn og eyjaheimsóknir í bland. Við erum einnig með fjölda ferðum sem reyna hressilega á. Sumarleyfisferðum þar sem fólk þarf að bera allt á bakinu og einnig hreinræktaðar fjallgöngur sem taka einn dag. Þeir sem ætla í skíðagönguna yfir Drangajökul um Hvítasunnu þurfa að vera í þokkalega góðu formi. Sömuleiðis þeir sem fara með Jökli Bergmann í fjallaskíðaferð á Tungnahryggsjökul í apríl. Svo verður stefnan tekin á góða tinda og jökli, eins og Hvannadalshnjúk, Þverártindsegg og Hrútfellstinda svo dæmi séu nefnd.“

Sigrún Valbergsdóttir hefur setið í ferðanefnd síðustu árin. Á þeim tíma segir hún  ferðamenningu landans hafa tekið talsverðum breytingu.  Almennur áhugi á menningartengdri ferðamennska hafi stóraukist – sem og forvitni fólks um sögu, atvinnuhætti, náttúrufar, ferðaleiðir og sérkenni þeirra svæða sem ferðast er um. Í því sambandi gegni árbækur Ferðafélagsins stóru hlutverki, en einnig góðir fararstjórar og velmenntaðir staðarleiðsögumenn. Þá almenn jeppaeign hafi breytt skipulagi margra ferða. 

Dagsferðir um Reykjanes

Í samvinnu við Reykjanesfólkvang mun FÍ í sumar efna til nokkurra dagsferða um þær slóðir. Sigrún segir það vera mjög ánægjulega þróun því á Reykjanesinu -  örskammt frá mesta þéttbýlissvæði landsins - sé ósnortin náttúruparadís með óþrjótandi ævintýraleiðum. „Við munum meðal annars fara að Selatöngum og ganga um Krýsuvíkurberg. Reykjanesið hefur verið nokkuð í umræðunni síðustu misserinni vegna fyrirhugaðra virkjana og auðlindanýtingar. Í seinni tíð er fólk er almennt orðið mikið meðvitaðra um þá auðlind sem ósnortin náttúra er og vill fólk taka upplýsta afstöðu. Ferðir um þau svæði sem hverju sinni eru í umræðunni hafa verið mjög fjölmennar,“ segir Sigrún Valbergsdóttir.