„Ótrúlega gaman og óþægilegt“

Rúna (t.h.) og Hulda Steingrímsdóttir, sem einnig er í Landsvættahópnum, kláruðu Bláalónsþrautina við erfiðar aðstæður.
Rúna (t.h.) og Hulda Steingrímsdóttir, sem einnig er í Landsvættahópnum, kláruðu Bláalónsþrautina við erfiðar aðstæður.

 „Þetta er búið að vera ótrúlega gaman og óþægilegt,“ svarar Rúna Gizurarson þátttakandi á Landvættahópi FÍ í ár, aðspurð um það hvernig þessa reynsla hefur verið hingað til. Hún bætir við broskalli á eftir „óþægilegt“.  Í Landvættahópnum er sannarlega farið út fyrir þægindarammann. 

Tveimur þrautum er lokið, af fjórum. Fossavatnsgangan fór fram í lok apríl í afspyrnugóðu veðri. Nú í byrjun júní var svo Bláalónsþrautin. Sú 60 km hjólreiðakeppni var mikil þrekraun þetta árið. Rok var mikið og rigning. Keppnin var því sannkallað drullumall og margir uppgefnir á eftir. 

Miklu betra form

Um 80 manns eru í Landvættahópnum og stemmningin er góð. „Það sem er skemmtilegt er að ég er að gera fullt af nýjum hlutum sem ég hefði líklega aldrei gert ef ég hefði ekki farið í Landvættina eins og til dæmis að fara á gönguskíðum til Landmannalauga,“ segir Rúna. „Síðan er margt skemmtilegt fólk sem maður er búin að kynnast. Einnig er ég að reyna miklu meira á mig í þessu prógrammi og ég hef komist að því að ég get miklu miklu meira en ég hélt. Þetta er allt í hausnum á manni. Maður getur miklu meira en hugurinn segir. Það er mjög skemmtilegt að ég er komin í miklu betra form en ég var í.“ 

Næst á dagskrá hjá Landvættahópnum er Urriðavatnssundið í lok júlí. Um helgina var farið í æfingaferð í Grundarfjörð þar sem teknar voru villisundsæfingar i í tilheyrandi göllum.  Jafnframt var hlaupið, enda mikilvægt að æfa sig vel fyrir síðustu þrautina, Jökulsárhlaupið um miðjan ágúst.

Landvættahópurinn æfir villisund af kappi þessa dagana.