Vegna forfalla eru nokkur pláss laus í ferð Ferðafélagsins Norðurslóðar: Öxarfjörður út og suður sem farin verður dagana 11.-15. júlí.
Ferðafélagið Norðurslóð er deild í Ferðafélagi Íslands sem nær yfir norðausturhluta landsins, Melrakkasléttu og Langanes og býður upp á bæði styttri og lengri ferðir um þetta landssvæði. Í ferðinni um Öxarfjörð er gengið í fjóra daga um fáfarnar og fallegar slóðir sem mest megnis eru aðeins kunnar heimamönnum, sjá lýsingu hér að neðan. Ferðin er flokkuð sem tveggja skóa ferð og gist er á Farfuglaheimilinu á Kópaskeri í fjórar nætur.
Fólk skráir sig í ferðina með því að hafa samband við Ferðafélagið Norðurslóð í gegnum netfangið: ffnordurslod (hjá) simnet.is eða í síma 892-8202.
Öxarfjörður út og suður
Bækistöðvarferð frá Kópaskeri. Gengið frá fjöru til fjalla, um núpa, gil og gljúfur.
1. dagur, mánudagur: Mæting á Farfuglaheimilið á Kópaskeri. Þátttakendur koma sér fyrir. Fræðslufundur 20:00 þar sem farið er yfir dagskrá næstu daga.
2. dagur: Gengið út að Snartarstaðanúp, um Grímshöfn, Vörsluvík og fleiri víkur, með viðkomu í Kópaskersvita. Yfir Núpinn og ofan í Hvalvík. Síðan ekið að Núpskötlu og gengið á Rauðanúp.
3. dagur: Menningar- og fræðslurölt á Kópaskeri og næsta nágrenni. Byggðasafnið og Skjálftasetur heimsótt og gengið um Kópaskersmisgengið.
4. dagur: Gengið að Naustárfossi, þaðan upp á Öxarnúp og litið yfir Öxarfjörðinn allan. Gengið í Klaufargerði og fræðst um kumlið sem fannst þar í grenndinni. Síðan um Svelting í Buðlungahöfn.
5. dagur: Eftir heimsókn í Grettisbæli verður gengið upp með Jökulsá að austan, um Borgirnar upp að Gloppu. Ofan í gljúfrin og upp úr þeim aftur. Fáfarnar slóðir í ævintýralegu umhverfi Jökulsárgljúfra.
Verð: 34.000 / 37.000. Innifalið: Gisting, akstur, göngukort, fararstjórn.