Ratleikur FÍ í Heiðmörk

Ferðafélag Íslands hefur sett upp varanlegan ratleik í Heiðmörk fyrir börn, unglinga og fullorðna. Hægt er að hefja ratleikinn hvenær sem er og þátttakendur geta verið einn eða fleiri.

Ekki er um kapphlaup að ræða, heldur reynir á ratvísi, hugmyndaflug, skynjun og styrk. Lesa þarf í skýjafar, vindátt, plöntu- og trjátegundir, sólúr og sögulegan fróðleik ásamt því að leggjast í hengirúm! Höfundur ratleiksins er Björk Sigurðardóttir kennari í Ísaksskóla.

Til að taka þátt skal ekið Rauðhólamegin inn í Heiðmörk, alltaf beint áfram (framhjá Furulundi) þar til komið er að bílastæði við spildu Ferðafélags Íslands. Þar í grennd er póstkassi þar sem nálgast má eintak af ratleiknum ásamt korti og skila lausnum á sama stað. Einnig má nálgast eintak á skrifstofu Ferðafélags Íslands eða prenta út þetta þátttökublað.  

Takið með ykkur penna, lesgleraugu og nesti! Áttaviti er ekki nauðsynlegur. Munið að skilja hvergi eftir rusl.

Þátttaka er ókeypis. Dregið verður úr réttum lausnum og í verðlaun eru veglegir vinningar frá Ferðafélagi Íslands og Fjallakofanum.