Rauður kall á Laugaveginum

Skilti með upplýsingum um réttan búnað og ferðatímabil hefur nú verið sett upp í Landmannalaugum og Þórsmörk.
Skilti með upplýsingum um réttan búnað og ferðatímabil hefur nú verið sett upp í Landmannalaugum og Þórsmörk.

Góð vísa er aldrei of oft kveðin.  Það er mjög mikilvægt fyrir ferðamenn að vera vel búnir í ferðum sínum um hálendið.  Göngufatnaður, hlífðarfatnaður, bakpoki, nesti, gps tæki og fjarskiptabúnaður er nauðsynlegur í allar lengri ferðir. Þá er mikilvægt að kynna sér veðurspá, þekkja leiðina og skilja eftir ferðaáætlun á www.safetravel.is 

Öll þessi atriði og fleiri til heyra undir góðan undirbúning fyrir ferð.  Með góðum undirbúningi má auka öryggi og ánægju í ferðinni. 

Flestir ferðamenn eru vel búnir og hafa vandað til undirbúnings ferðar.  Því miður eru þó alltaf einhverjir sem eru vanbúnir og illa búnir og hafa ekki áttað sig á aðstæðum sem þeir geta lent í á hálendi Íslands. 

Ferðafélag Íslands og safetravel.is  hafa nú sett upp skilti á helstu áfangastöðum á Laugaveginum sem varar fólk við að leggja af stað ef það er ekki rétt útbúið.  Það var Árni Tryggvason sem hannaði skiltið fyrir FÍ og safetravel.