Nokkuð sérstök ferð verður á vegum Ferðafélags Íslands dagana 12. og 13. september nk. en það er svokölluð Draugaferð í elsta sæluhús Ferðafélagsins í Hvítárnesi. Fararstjórar eru hjónin Páll Ásgeir Ásgeirson og Rósa Sigrún Jónsdóttir, margreyndir fararstjórar og ferðabókahöfundar.
Ãau fóru ferð af þessu tagi í fyrsta sinn í fyrra um svipað leyti og var hópurinn þá alls 20 manns sem er hámark því að fleiri geta ekki setið til borðs með góðu móti í skálanum þegar sögurnar eru sagðar með tilheyrandi rökkurstemmingu.
Páll Ásgeir segir draugasöguferðina þannig til komna að þau hjónin hafi oft verið á ferð í fjallaskálum og þegar fólk hafi sest niður að kvöldi, hafi verið byrjað að segja sögur og þannig hafi smám saman safnast í sarpinn hjá þeim.
ÂHvítárnesskálinn er tilvalinn vettvangur, elsti skáli ferðafélagsins og fullur af sögu,“ segir hann. „Fljótlega fór að bera þar á ýmsu, reyndar svo að fljótlega var ráðist í að reisa skúr við hlið aðalskálans, þar sem skálavörðurinn hélst ekki við í honum.
ÂÞað er svo ekki lengra en áratugur eða þar um bil að virðulegur forseti félagsins og vammlaus tæknifræðingur í stjórn félagsins töldu þann kostinn vænstan að koma í skálann með nafntogaðan fyrrverandi sóknarprest sem þuldi bænir og blessaði út í hvert skot. Engu að síður telur fólk sig enn verða draugsins vart.“
Gervihnattasamband við staðsetningartækin úti
Páll Ásgeir klikkir síðan út með svolítið yfirnáttúrulegum sögum úr þessari sömu ferð haustið 2008, en gefum honum orðið:
ÂÞegar við fórum í umtalaða draugaferð á síðasta ári varð fljótlega ljóst að með í förinni var fólk sem er næmt á hluti sem varla verða skýrðir með hefðbundinni vísindalegri nálgun.
Daginn sem við komum í Hvítárnes fór hópurinn í gönguferð að miklu grettistaki sem stendur við hinn forna Kjalveg ekki langt frá skálanum. Þetta er afar stór steinn með gróðri ofan á og líkist reyndar litlu húsi með torfþaki. Hann sést ekki frá skálanum en einhver í hópnum dró upp vandað GPS tæki og hugðist taka punkt við steininn. Þá reyndist ekki samband nást við gervitungl í námunda við steininn líkt og yfir honum hvíldi hjúpur. Þetta staðreyndi ég með mínu eigin GPS tæki sem aldrei hefur mistekist að ná sambandi við tunglin undir berum himni áður.
Daginn eftir var gengið að Beinahól á Kili þar sem Reynistaðabræður urðu úti í lok átjándu aldar. Hópurinn lagði allur af stað en veður var rysjótt svo á miðri leið sneru nokkrir aftur til baka að rútunni sem beið við Kjalveg. Þegar þeir komu að rútunni sáu tvær konur í hópnum glögglega að eitt sæti í miðri rútu var upptekið og sat þar dökkklædd mannvera álút nokkuð. Þetta þótti undarlegt þar sem bílstjórinn hafði einn orðið eftir í bílnum. Þegar hópurinn kom alveg að bílnum og knúði dyra opnaði bílstjórinn og sat þá einn í sæti sínu við stýrið og hafði engra mannaferða orðið var.“
Draugaferð í haustmyrkri
à nánari lýsingu á ferðinni er minnt á að samkvæmt könnun árið 2000 trúðu 78% Íslendinga á líf eftir dauðann og komi niðurstaðan sjálfsagt engum á óvart. Allir hafi fengið gæsahúð yfir góðri draugasögu við réttar kringumstæður. Ferðafélag Íslands byggði sitt fyrsta sæluhús í Hvítárnesi við Hvítárvatn árið 1929 og allt frá fyrstu tíð hafi gengið magnaðar sögur af reimleikum á staðnum.
ÂUm miðjan september nánar tiltekið 12-13 þegar haustmyrkrið er orðið svart og náttúran komin í sinn sölnaða vetrarbúning efnir Ferðafélagið til sérstakrar draugaferðar í Hvítárnes og nágrenni. Með þessu vill Ferðafélagið minnast við þjóðleg og forn fræði og ganga á vit menningararfsins með vettvangskönnun.
Ferðin hefst á laugardagsmorgni þegar farþegar fara í rútu frá Geysi í Haukadal og aka sem leið liggur inn á Kjöl. Á leiðinni verður hin átakanlega saga af feigðarför Reynistaðabræðra rifjuð upp og helstu áfangar þeirra skoðaðir. Rútan ekur hópnum inn að afleggjaranum inn að Beinahól á Kili en þar báru bræðurnir beinin haustið haustið 1780 og enn er hula dulúðar og ósvaraðra spurninga sveipuð um það sem raunverulega gerðist. Hópurinn gengur síðan í fótspor bræðranna og fjárreksturs þeirra að Beinahóli sem eru rúmir þrír kílómetrar hvora leið. Við Beinahólinn vakna fornar sagnir og verða ljóslifandi fyrir augum ferðamanna í þöglu, köldu og miskunnarlausu hrauninu.
Ãegar komið er til baka í rútuna er ekið áleiðis í Hvítárnes þar sem gist verður. Þátttakendur setjast saman yfir rjúkandi heita og kjarnmikla kjötsúpu og brauð en eftir kvöldmat er kvöldvaka að fornum sið. Þar verða rifjaðar upp reimleikasögur úr Hvítárnesi og sagt frá nýlegum tilraunum til að kveða niður þá anda sem þar ásækja ferðamenn. Ein koja í húsinu hefur á sér sérstakt orð á þessu sviði og er sagt að karlmenn sem þar hvíla verði oftar fyrir ásókn er aðrir. Dregið verður um það úr hópi karlanna hver fær að gista í “draugakojunni”.
Morguninn eftir reiða fararstjórar fram „morgunverð gangnamannsins“ sem er lútsterkt ketilkaffi dísætt með hnausþykkum rúgbrauðssneiðum og spikfeitri kæfu. Eftir morgunmat fara ferðalangar saman í gönguferð um nágrenni skálans og rannsaka rústir sem tengjast draugaganginum, ganga eftir hinum forna Kjalvegi og fara að undarlegum álfasteini í nágrenninu sem tengist sögu Ferðafélagsins með sérstökum hætti.
Um hádegisbil er haldið til baka með rútunni niður að Geysi þar sem ferðinni lýkur síðdegis á sunnudag.“
Ãessi frétt er tekin af mbl.is