Rúmlega 70 í örgöngu í Grafarholti

Rúmlega 70 manns tóku þátt í örgöngu FÍ í Grafarholtinu í kvöld. Gengið var í einmuna blíðu frá hitaveitugeymunum í Grafarholti, niður meðfram golfvelli GR, yfir holtið að Rauðavatni og meðfram golfvellinum tilbaka, allt eftir ljómandi góðum göngustígum, nema rétt í lokin var gengið yfir gróið land. Höskuldur Jónsson fyrrverandi forsetí FÍ var göngustjóri ásamt Guðlaugu Sveinbjarnardóttur.  Þetta var þriðja örganga Ferðafélagsins í Grafarholti og hafa þær notið mikilla vinsælda.  Í örgöngunum er rölt í rólegheitunum og stoppað við sögulega eða sérstaka staði og sagt frá ýmsu fróðlegu.  Í pósti frá fararstjórum segir að örgöngur séu ekki kappgöngur, sem og að örgöngur falli aldrei niður vegna veðurs og allir séu velkomnir.  Fjölmargir í örgöngum FÍ nú eru byrjendur í gönguferðum og hafa líst ánægju sinni með þægilegan gönguhraða og skemmtilegan fróðleik frá fararstjóra.  Nú eru eftir tvær örgöngur FÍ, tvo næstu miðvikudaga og má á næstunni sjá frekari göngulýsingu frá göngustjórum.