Rúmlega eitt hundrað FÍ Landvættir í Bláalónsþraut

Rúmlega eitt hundrað þátttakendur í Landvættaverkefni Ferðafélags Íslands luku keppni í mjög vel heppnaðri sextíu kílómetra Bláalónsþraut á fjallahjólum um liðna helgi og hafa þar með lokið helmingi þeirra þrauta sem heyra til Landvættaáskoruninnar.

Aðstæður voru með besta móti enda góður meðvindur mestalla leiðina og sama veðurblíðan og leikið hefur við suðvesturhornið síðustu vikurnar. Einn meðlima FÍ Landvætta handleggsbrotnaði í keppninni en er á góðum batavegi. Þurrkarnir undanfarið gerðu það að verkum að brautin var mjög þurr og laus í sér.


Þetta er fjórða árið sem FÍ Landvættir eru starfræktir á vegum Ferðafélags Íslands en verkefnið hefur notið mikilla vinsælda og verið biðlistar inn í það á hverju ári. Til þess að verða Landvættur þarf að ljúka á tólf mánuðum fimmtíu kílómetra langri skíðagöngu á Ísafirði sem kennd er við Fossavatn, fyrrnefndri Bláalónsþraut, synda tvo og hálfan kílómetra í Urriðavatni við Egilsstaði og ljúka ýmist tuttugu og sex kílómetra löngu Þorvaldsdalshlaupi eða þrjátíu og þriggja kílómetralöngu Jökulsárhlaupinu frá Dettifossi niður að Ásbyrgi.