Sameiginlegt ævintýri foreldra og barna

,,Hugmyndin er sú að foreldrar og börn gangi saman og upplifi náttúruna í sameiningu. Þetta eru gæðastundir því fólk hefur tíma til þess að spjalla og kynnast hvort öðru á annan hátt en við eldhúsborðið heima," segir Brynhildur Ólafsdóttir sem hefur ásamt eiginmanni sínum Róberti Marshall leitt starfsemi Ferðafélags barnanna undanfarin ár.


Félagið er starfrækt allan ársins hring innan vébanda Ferðafélags Ísland og býður upp á fjölbreyttar og ævintýralegar upplifanir foreldra og barna, meðal annars í samstarfi við sérfræðinga frá Háskóla Íslands. Má þar nefna kræklingaferðir, snjóhúsagerð, ratleiki, plöntu-, fugla-, og hellaskoðanir. Allar dagsferðir félagsins eru ókeypis en það þarf að panta og greiða fyrir lengri ferðir.


Út fyrir þægindaramma fjölskyldunnar

,,Í lengri gönguferðunum eru fjölskyldurnar oft að fara út fyrir sinn þægindaramma. Það þarf að elda mat í fjallaskála, kannski þurrka föt sem hafa blotnað og heimsækja misgóð salerni eða kamra. Allt eru þetta verkefni sem fjölskyldan þarf að takast á við í sameiningu," segir Brynhildur.

,,Þetta eru í sjálfu sér ekkert auðveldari ferðir en ferðir fyrir fullorðna," bætir Brynhildur við. ,,Þetta eru oft sömu dagleiðirnar en þær eru farnar öðruvísi, minni hlutir eru skoðaðir: holur, hellar, köngulóavefir. Allt verður að skemmtilegum verkefnum sem leyst eru í sameiningu. Það þarf að ákveða leiðina sem er farin, finna vöð á ánni eða stikla á steinum yfir læk."

Sögur og samtal

Róbert tekur undir þetta: ,,Fjölskyldan dettur út úr sínum venjubundnum hlutverkum. Símarnir og spjaldtölvurnar eru skildir eftir og mikið lagt upp úr sögum og samtali. Börnin fá til dæmis verkefni þar sem þau eiga að komast að einhverju sem þau vissu ekki áður um foreldra sína. Við erum líka oft að velta fyrir okkur örnefnum og náttúrufyrirbærum. Af hverju hlutirnir séu eins og þeir eru."


Kátur krakkahópur eftir Laugavegsgöngu


Róbert segir að áherslan sé á að njóta alls þess sem dagurinn hefur upp á að bjóða, ekki flýta sér heldur skoða og vera í stundinni með fólkinu sínu. ,,Það er snilldin við svona ferðalög þar sem allir ferðast saman, þrátt fyrir misjafna sporlengd. Og þetta er auðvitað það sem ferðalög eiga snúast um. Þau eru ekki bara vegna áfangastaðanna heldur er ferðalagið ævintýri í sjálfu sér.

Heimanmundur sem endist alla ævi

Börn þeirra hjóna fylgja alltaf með í ferðunum og eru því orðnir nokkuð reyndir ferðalangar. Ólafur Róbertsson, sá yngsti í fimm barna hópnum, hefur þannig gengið Laugaveginn fjórum sinnum þrátt fyrir að vera aðeins 10 ára. Brynhildur segir þau alltaf hafa verið mjög ákveðin í að ferðast með börnunum.


Á toppi Snækolls í Kerlingarfjöllum

,,Okkar börn hafa ferðast með okkur á öllum aldri, jafnt að vetri sem sumri og okkur hefur alltaf fundist að óskiljanlegt að fólk detti út úr útivist vegna barneigna. Börn eru engin fyrirstaða, hvort sem fólk gistir í skálum eða tjöldum. Þetta er bara spurning um útbúnað og útsjónarsemi. Ég held að þetta sé eitt það besta sem maður gefur börnunum sínum. Náttúra Íslands er ekki lítill heimanmundur út í lífið. Þetta er heimanmundur endist ævilangt," segir Brynhildur að lokum.

Hægt er að nálgast dagskrá Ferðafélags barnanna á heimasíðunni ferdafelagbarnanna.is og líka á þessari síðu, fi.is en félagið er einnig með sérstaka fésbókarsíðu.