Samingur um Árbók FÍ 2011

Í dag skrifuðu  Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ og Árni Björnsson þjóðháttarfræðngur undir ritsamning þess efnis að Árni Björnsson skrifar Árbók FÍ 2011 um Dalasýslu.  Árbók FÍ 2009 verður um Vestmannaeyjar og Árbók FÍ 2010 um Torfajökulssvæðið.

Ferðafélag Íslands gaf út sína fyrstu árbók árið 1928.  Árbókin hefur síðan komið út árlega í óslitinni röð og er einstæður bókaflokkur um land og náttúru. Hver bók fjallar venjulega um tiltekið afmarkað svæði á landinu og nær nú efni þeirra um landið allt, víða í annað eða jafnvel þriðja sinn. Árbækur Ferðafélagsins, 79 að tölu, eru því í raun altæk Íslandslýsing á meira en tólf þúsund blaðsíðum.

Ferðafélagið hefur alla tíð kostað kapps um að gera árbækur sínar sem best úr garði og jafnan fengið heimamenn á hverjum stað og aðra sérfræðinga til liðs. Þannig hefur verið reynt að gera alla texta- og heimildarvinnu sem traustasta. Mikinn fróðleik um náttúrufar er að finna í bókunum, gróður, fugla og aðra landsins prýði, en ekki síst um jarðfræði og myndunarsögu landsins. Saga og menning skipa háan sess í umfjöllun um byggðirnar. 

Ljósmyndir hafa verið í bókunum frá upphafi og hefur félagið notið liðs ágætra landslags- og náttúrulífsljósmyndara. Framfarir í ljósmyndatækni og prentun hafa skilað sér í fallegri bókum. Sést vel í ritröðinni hvernig bækur hafa skipt um útlit og hönnun eftir kröfum tímans.

Jón Viðar Sigurðsson er ritstjóri árbókar FÍ og Daníel Bergmann annast umbrot og myndvinnslu.