Samningur við Siglingastofnun um Hornbjargsvita

  siglingastofnun-samningur
Frá undirritun samningsins

Í vikunni skrifuðu fulltrúar Siglingastofnunar og Ferðafélags Íslands undir samning til fimmtán ára um afnot vitavarðarbústaðarins við Hornbjargsvita í Látravík. Þar var samþykkt að ferðafélagið fær bústaðinn til afnota endurgjaldslaust gegn því að sinna viðhaldi og endurbótum á mannvirkjum og aðstöðu sem nauðsynleg er til reksturs ferðaþjónustu á staðnum.

Bygging Hornbjargsvita og íbúðarhúss fyrir vitavörð árið 1930 í Látravík austan Hornbjargs eru til vitnis um stórhug við að tryggja öryggi sjófarenda, enda var þarna lengi afskekktasta byggð á Íslandi. Í vitanum var upphaflega gasljóstæki en árið 1960 var hann raflýstur með orku frá lítilli vatnsaflsstöð og ljósavélum. Vitinn var rafvæddur með sólar- og vindorku árið 1995 og sjálfvirk veðurathugunarstöð sett upp. Þá var jafnframt lögð af búseta vitavarðar í Látravík.

Undanfarin ár hafa hjónin Ævar Sigdórsson og Una Lilja Eiríksdóttir séð um rekstur vitavarðabústaðarins á Hornbjargi í Látravík af mikilli röggsemi og er samningurinn við Ferðafélagið sambærilegur því fyrirkomulagi.

Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ segir að það sé spennandi verkefni að taka við Hornbjargsvita og FÍ vilji halda áfram því mikla og góða uppbyggingarstarfi sem Ævar og Una hafa unnið undanfarin ár.

,,Ferðir á Hornstrandir eru stór hluti af ferðaáætlun FÍ og nú munum við bjóða upp á fleiri ferðir í Hornbjargsvita og skipuleggja ferðir út frá staðnum.  Það eru hugmyndir um að bjóða upp á ferðir í Hornbjargsvita með því að sigla frá Ísafirði eða Bolgungarvík í Lónafjörð eða Veiðileysufjörð og ganga þaðan í Hornbjargsvita. Það er nánast alltaf öruggt með lendingu í Lónafirði og Veiðileysufirði og aðeins nokkurra tíma ganga þaðan í Vitann.  Þá eru uppi hugmyndir um að gera vitann að bækistöð, þannig að ferðamenn geti fengið mat og búnað á staðnum.  Við viljum einnig öryggis ferðamanna á svæðinu lengja viðveru skálavarðar í húsinu, " segir Páll.  

Páll segir að FÍ muni vinna að þessu verkefni með hagsmunaaðilum og samstarfsaöilum á svæðinu.