Skaftafell í Öræfum

www.ormstunga.is  –  sími 561 0055

Reykjavík, 28. nóvember 2007

Jack D. Ives

Skaftafell í Öræfum Skaftafellbok

- Íslands þúsund ár

Þorsteinn Bergsson á Unaósi íslenskaði Út er komin bókin Skaftafell í Öræfum – Íslands þúsund ár eftir breska fjallavistfræðinginn Dr. Jack D. Ives.

Jack D. Ives fæddist í Grimsby árið 1931. Hann útskrifaðist sem landfræðingur frá háskólanum í Nottingham 1953. Á námsárunum skipulagði hann og stjórnaði rannsókna­leiðöngrum enskra háskólanema til Íslands þar sem kannaðir voru m.a. Morsárjökull, Svínafellsjökull og Skaftafellsjökull. Bæði masters- og doktorsverkefni hans fjölluðu um Öræfin og Morsárjökul.

Jack er einn af höfundum Ríó-sáttmálans og nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar vegna rannsókna sinna á fjallahéruðum um allan heim. Hann kynntist Ragnari Stefánssyni bónda í Skaftafelli í fyrstu Íslandsferðinni 1952 og tengdist honum sterkum böndum. Upp frá þeirri stundu hefur hann verið tíður gestur í Skaftafelli. Bókin er því öðrum þræði saga Ragnars, fyrirrennara hans og afkomenda.

Höfundur  tekur saman efni um náttúru og mannlíf  í Öræfum frá landnámsöld fram á okkar daga. Auk þess fjallar hann um þjóðgarðinn í Skaftafelli og aðdragandann að stofnun hans. Hann segir frá leiðöngrum ensku stúdentanna 1952–1954 og ævintýrum þeirra.

Árið 1953 týndust tveir leiðangursmanna á leið frá tjaldbúðunum á jöklinum á Hvannadalshnúk og er ekki vitað um afdrif þeirra né hvað gerðist. Sumarið 2006 fundust leifar af búnaði þeirra á Skaftafellsjökli. Í bókinni er áhrifamikil frásögn af þessum atburðum.

Fjöldi mynda er í bókinni ásamt kortum sem sýna þau býli sem þraukað hafa í meira en þúsund ár, ásamt mörgum þeirra bæja og kirkna sem jöklagangur og eldvirkni hafa þurrkað út. Einnig sýna kortin jökulsporða, farvegi jökuláa og helstu nytjalönd.

Vigdís Finnbogadóttir, Alp Mehmet sendiherra Breta á Íslandi og Helgi Björnsson jöklafræðingur rita formálsorð.

Bókin kemur einnig út á ensku, Skaftafell in Iceland – A Thousand Years of Change.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsetri útgefandans, www.ormstunga.is.

Um 90 ljósmyndir, gamlar og nýjar, prýða bókina. Harðspjöld, 256 bls. Bókin er prentuð hjá WS Bookwell Oy í Finnlandi. Verð 5.200 kr. Útgefandi er Ormstunga.