Skaftárganga - Draumaleið göngumannsins

Skaftárganga - draumaleið göngumannsins - 14. - 16. maí

Skemmtileg, þægileg gönguferð með miklum fróðleik um einstaklega fallegt svæði.

Leiðsögumaður: Jón Helgason
Fararstjóri: Broddi Hilmarsson

Frá Skál að Eldmessutanga.15. maí 2010                                                                             
Söguganga ca 15 km (6 - 7 klt.)

      Laugardaginn 15. maí kl. 9.00 er horft á myndina Eldmessu í félagsheimilinu Kirkjuhvoli, Kirkjubæjarklaustri til að skynja betur umhverfi og andrúmsloft í Skaftáreldum og Móðuharðindum.

      Að sýningu lokinni er ekið að bænum Skál á Síðu.  Gangan hefst yfir brúna á Skaftá upp á Múlann austan við dalkvosina, sem bærinn stendur í.  Þaðan sést yfir Skaftáreldahraunið eftir að það ruddist í mörgum eldköstum frá Lakagígum niður Skaftárgljúfur hjá Skaftárdal, þar sem það breiddi úr sér milli Skálarfjalls og Skaftártunguheiða langt niður í Meðalland og austur í Landbrot sunnan við Skál. Síðan er aftur haldið suður yfir Skaftá og austur  eftir nýrunnu eldhrauni (aðeins 227 ára gömlu).  Þar er, í skjóli hárra hamra og fagurra hlíða, hægt að sjá fyrir sér, með góðri leiðsögn, myndun hinnar einstöku náttúru, sem tengist hinni hörðu lífsbaráttu genginna kynslóða, sigri og ósigrum.

     Liggur leiðin eftir göngustíg, sem var lagður með höndunum  fljótlega eftir Eld frá Skál og austur Landbrot í meðfram hraunsprungunni Bresti yfir hina víðáttumiklu hraunbreiðu sunnan við Skaftá.  Til hliðar við Brest má fyrir hugskotssjónum sínum sjá, með hinum nákvæmu lýsingum sr, Jóns Steingrímssonar, eldsúluna standa upp úr fjárréttinni stóru og öðrum gerfigígum í Holtsgörðum, áður en eldflóðið steyptist yfir þá, ásamt fögrum áningarstað ferðamanna og frjósömu slægjulandi í Holtsdælum og að lokum stórbýli bændanna í Holti, þar sem  hinn fagri Holtsdalur blasir við á vinstri hönd.

      Austan hans fellur Skaftá fast að snarbrattri Holtsheiði, en austan hennar birtist  hin einstaka náttúrusmíð, Fjaðrárgljúfur.  Framundan er Dalbæjarstapi, þar sem eldflóðið fór niður Stapafoss, er var hár með stórum svelg og iðukasti.  Þegar eldhraunið hafði hrúgast þar upp og út fyrir gljúfrið fyrir neðan, fór það að mestu  yfir bæinn í Ytri-Dalbæ, svo aðeins sést þar nú í brún rústanna í Bæjarhólmanum. Norðan við Skaftá fór það hins vegar fast að hlaðvarpanum á Hunkubökkum, en Skaftá hefur nú grafið undan rústum bæjarins.

      Nú liggur leiðin yfir brúna á Skaftá hjá Hunkubökkum og upp í Smjörtorfu, hátt í hlíðarbrekku, þar sem bærinn stóð hátt á aðra öld eftir Eld.  Síðan gamla götuslóða austur heiðarbrúnina, þar við blasir fögur fjallasýn í austri og vestri, en á sléttlendinu eru hinir óteljandi Landbrotshólar með fjölmörgum gerfigígum.  Niður af heiðinni má fara að Eldmessutanga, þar sem lónin úr Holtsá og Fjaðrá í mestu flugferð og boðagangi kæfðu eldinn,”sem sjáanlegt verður til heimsins enda, ef þar verður ei á önnur umbreyting”. Austur að Kirkjubæjarklaustri er gengið framhjá Systrastapa.

 

     Sunnudaginn 16. maí er haldið frá Kirkjubæjarklaustri kl. 9.00 suður yfir Skaftárbrú, en síðan til vinstri suður í Landbrot.  Numið er staðar á nokkrum stöðum,  notið hins fagra útsýnis til Öræfajökuls, Lómagnúps og Síðufjalla, en einnig skoðað hið sérstaka landslag Landbrotshólanna.  Áfram er haldið suður í Meðalland, þar sem horft er niður til strandarinnar í Meðallandsbugt hjá Skaftárósi og yfir hið víðáttumikla graslendi, sem fyrir hálfri öld var að mestu fjúkandi sandur.  Litið er í gamla fjósið á Hnausum og í kirkjuna á Langholti, en síðan áfram upp með Kúðafljóti fram hjá gamla þingstaðnum á Leiðvelli, sem fór á kaf í sand á þremur dögum vorið 1944. (Hægt er síðan að fara upp í Skaftártungu að Búlandi og Ljótarstöðum, og síðan gamla veginn suður hjá Hrífunesi á hringveginn hjá Laufskálavörðu?).

Gist er á Hótel Kirkjubæjarklaustri.

Verð auglýst síðar

 

                                                            Jón Helgason.