Nú þegar líður inn í haustið verður skálum Ferðafélags Íslands lokað hverjum á fætur öðrum.
Þegar er búið að taka vatn af og loka og læsa skálunum á Kili, við Einifell, í Hvítárnesi, Þverbrekknamúla og í Þjófadölum. Það sama á við um Valgeirsstaði, skála FÍ í Norðurfirði á Ströndum.
Um næstu helgi 12.-13. september verður skálanum í Nýjadal á Sprengisandi lokað og helgina þar á eftir 19.-20. september verður gengið frá skálunum á Laugaveginum fyrir veturinn, þ.e. skálunum í Hrafntinnuskeri, Álftavatni, Hvanngili og í Botnum í Emstrum.
Skálar Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum og í Þórsmörk verða hins vegar opnir enn um sinn og þar verða starfandi skálaverðir áfram.
Fólki sem hyggur á vetrarferðir er bent á að hafa samband við skrifstofu FÍ í síma 568 2533 áður en farið er af stað, til að kanna aðstæður og panta skálagistingu.