Skálar FÍ á Laugaveginum opnir til 15. september

Náttúrufegurðin að Fjallabaki er engu lík og á haustin má upplifa einstaka daga á fjöllum.
Náttúrufegurðin að Fjallabaki er engu lík og á haustin má upplifa einstaka daga á fjöllum.

Skálar Ferðafélags Íslands á Laugaveginum verða opnir til 15. september. Skálar FÍ í Landmannalaugum og í Langadal á Þórsmörk verða opnir lengur. Haustið er yndislegur tími og hvergi betra að vera en úti í náttúrunni á fallegum haustdegi með tilheyrandi litadýrð og kyrrð. Því er tilvalið fyrir alla ferðafélaga að bóka eina eða tvær gistinætur í fjallaskálum FÍ að Fjallabaki nú í september og njóta útivistar og náttúrufegurðar.

Fjölmargar áhugaverðar gönguleiðir liggja í nærumhverfi skálanna og vill Ferðafélag Íslands benda hér á nokkra möguleika : 

Gönguleiðir út frá skála í Landmannalaugum

Brennisteinsalda og hverirnir

Í fyrstu er farið eftir leiðinni upp í Hrafntinnusker. Þegar komið er upp fyrir hraunið í miðri hlíð Brennisteinsöldunnar er um þrennt að velja (áætlaður göngutími leiða a) og b) 2 klst., c) 3 klst).

  1. a) Ganga sömu leið til baka sem er léttasti kosturinn.
  2. b) Ganga fram Grænagil með Laugahraun á vinstri hönd og Bláhnúk á hægri hönd. Þá er best að stefna yfir hraunið á suðurenda hryggjar sem gengur niður úr miðjum Bláhnúk. Ágæt leið er merkt yfir hraunið. Best er að halda sig uppi á hraunkantinum þegar komið er að gilinu. Göngustígur er einnig niðri í gilinu en hann er víða ógreiður og sums staðar hefur runnið úr honum. Hraunið er þó á köflum erfitt yfirferðar. Að lokum er slóðin greinileg og liggur niður í gilið og þá er gengið meðfram læknum. Gilið dregur nafn sitt af grænum biksteini sem er glerkennt afbrigði af líparíti og hefur myndast við hraða storknun. Þegar komið er í mynni Grænagils er haldið til norðurs meðfram hraunkantinum að skála FÍ í Landmannalaugum.
  3. c) Ganga upp á Brennisteinsöldu. Þá er haldið upp í skarðið milli öldunnar og efstu upptaka Laugahrauns. Léttast er að ganga á fjallið rétt innan við skarðið en þar er hallinn minnstur. Af toppnum fæst ágætis sýn til norðausturs yfir Laugahraun. Þar sjást í fjarska Syðri og Nyrðri-Háganga og austan við þær má sjá í góðu skyggni inn í Hamarinn og inn á Bárðarbungu í Vatnajökli. Nær eru Snjóalda og Snjóöldufjallgarður. Háalda blasir við í vestri með Vondugil á milli. Bláhnúkur, Reykjafjöll og Hrafntinnusker skyggja á útsýni til suðurs. Af toppi öldunnar er síðan gengið niður á flatlendið innan Laugahrauns og þaðan sömu leið til baka og heim í skála í Landmannalaugum. Líklega er Brennisteinsalda litskrúðugasta fjall landsins; aðallega eru í henni ljós afbrigði af gulum, bleikum, brúnum, gráum og rauðum lit, enda er sem sólskin sé á öldunni, jafnvel í dumbungsveðri.

 

Bláhnúkur — Skalli — Vörðuhnúkur

Áætlaður göngutími á Bláhnúk 2–3 klst., á Skalla, Vörðuhnúk 6–8 klst.

Lagt er af stað frá skála FÍ og gengið eftir ökuslóðanum sem liggur suður með jaðri Laugahrauns að Grænagili, en læk sem fellur eftir því er hægt að vaða á vaðstígvélum eða stikla á steinum. Næst er gengið u.þ.b. 100 m til suðurs áður en lagt er á brattann. Gönguleiðin er greinileg og liggur upp eftir hrygg Bláhnúks. Þegar þangað er komið er aftur stefnt til suðurs og götunni fylgt alla leið upp á tind. Strax fáum við fagurt útsýni yfir Grænagil og litadýrðin er mikil. Brennisteinsalda blasir við, eitt litskrúðugasta fjall landsins. Eftir því sem ofar dregur opnast víðara útsýni. Fjöll miðhálendisins, eins og Kerlingarfjöll, fara nú að sjást. Á stalli rétt neðan við hátindinn er tilvalið að kasta mæðinni og skoða það sem fyrir augun ber, en þá er u.þ.b. 1/3 leiðarinnar eftir. Framhaldið er ívið brattara og leiðin liggur í krákustígum en fyrir vel skóaðan göngumann er hún ekki til vandræða. Þegar loks er stigið á tindinn opnast mikið útsýni til vesturs, norðurs og austurs. Í björtu sést yfir 100 km vegalengd. Til suðurs skyggja Torfajökulsfjöllin á útsýnið. Norðausturhluti öskjunnar í Torfajökli sést hér greinilega, þ.e. Barmur og Hábarmur, en þeir eru handan við Jökulgilskvíslina. Helstu gönguleiðir í grennd við skálann í Landmannalaugum sjást og einnig hvað þær bjóða göngumanninum upp á. Í björtu veðri verður enginn vonsvikinn af fjallasýninni. Á tindi Bláhnúks hefur verið komið fyrir útsýnisskífu til fróðleiks um örnefni svæðisins. Ef skoða á meira er haldið áfram og farið niður vestur af fjallinu. Slóðin er nokkuð brött en auðrötuð. Komið er niður innst í Grænagili, farið yfir lækinn og þá er stutt yfir á leið

1.1 b.

Hafi menn hins vegar nægan tíma er tilvalið að halda áfram inn í fjöllin. Þá er best að halda sig eins og hægt er á fjallshryggjunum ofan gilja. Hæst kemst maður inn á Skalla (1017 m). Sennilega er hvergi á öllu Landmannalaugasvæðinu jafnmikið litskrúð í landslaginu og hér. Héðan sést vel niður í Hattver í botni Jökulgilsins. Í suðri ber hæst Háskerðing og Torfajökul og í austri sést til Hábarms (1192 m). Reykjafjöll með Háuhveri eru í suðvestri. Síðan er gengið til baka austan við Litla-Brandsgil og reynt að halda Sjálfsagt er að ganga yfir Vörðuhnúk sem ber nafn af mjög snyrtilega hlaðinni vörðu á toppi fjallsins. Þaðan er mjög fagurt útsýni til vesturs, Bláhnúkur og Háalda í fjarska og niður í litskrúðug Brandsgilin tvö. Leiðin liggur síðan niður á jafnsléttu á milli Reykjakolls og Kjaftöldu. Einnig má ganga þessa leið öfugt við það sem lýst er hér að framan. Ganga upp á milli Kjaftöldu og Reykjakolls og þannig inn á Skalla. Þaðan er gengið niður, með Brandsgilin á hægri hönd og niður í botn Grænagils og út eftir því aftur heim í skála í Landmannalaugum. Séu göngumenn í góðu formi og veður gott er vel þess virði að bæta Bláhnúk við.

 

Suðurnámur — Háalda

Áætlaður göngutími 5–6 klst.

Gangan hefst við göngubrúna yfir Námskvísl. Nokkuð bratt er upp að vörðunni en stígurinn er vel troðinn og greinilegur. Héðan er skáli FÍ beint í suðri. Nú er haldið áfram til vesturs. Hryggurinn er breiður og auðgengur. Rétt er að líta til beggja átta, til norðurs eru skrautlegar hlíðar nyrðri hluta Suðurnáms og til suðurs sést glöggt yfir vinsælasta hluta friðlandsins, Landmannalaugar, Bláhnúk, Laugahraun og Brennisteinsöldu. Þegar halla tekur undan fæti í skarðinu milli Suðurnáms og Háöldu er best að halda sig á miðjum hryggnum, annars er hætta á að lenda í ógöngum. Úr skarðinu er stefnt upp á hátind öldunnar. Þaðan er frábært útsýni til allra átta og í góðu skyggni er a.m.k. níu jökla sýn. Til baka er um tvennt að velja:

  1. a) Að fara ofan gilja yfir á stikuðu gönguleiðina upp í Hrafntinnusker. Þessi leið er vandrötuð og ætti aðeins að fara hana í góðu skyggni. Áætlaður göngutími til baka í skála Ferðafélagsins Landmannalaugum er 4–6 klukkustundir.
  2. b) Að fara niður í áðurnefnt skarð milli Háöldu og Suðurnáms. Þaðan er auðveldast að fara niður við gilbarminn innst á Vondugiljaaurum. Aðrar leiðir eru illfærar og hættulegar. Í Vondugiljum neðan við Háöldu eru snotrir hverir, fallegir gróðurreitir og skrautlegt grjót. Nú er stefnt á hlíðar Brennisteinsöldu en á aurnum þarf að stikla yfir smálæki. Best er að halda sig á troðningum meðfram hlíðunum, því svæðið er votlent og gróður því viðkvæmur. Þá er komið á stikuðu leiðina sem liggur frá skálanum að hverasvæðinu. Stikunum er nú fylgt yfir Laugahraun niður að skála FÍ.

 

Brandsgil — Reykjakollur

Áætlaður göngutími 2–3 klst.

Þetta er auðveld og skemmtileg ganga, sem er tilvalin ef fjallasýn er lítil. Æskilegt er að vera í stígvélum því vaða þarf lækinn í Brandsgili hvað eftir annað. Gengið er meðfram Bláhnúk og inn í Brandsgil, hyldjúpt hamragil. Þegar kemur fyrir beygjuna á gilinu má sjá skafl sem liggur þar yfirleitt allt sumarið. Stundum eru þar íshellar. Fallegur foss er innst í gilinu og þægilegt að ganga að honum eftir skaflinum. Varast skal að ganga hann miðjan því snjóþekjan yfir ánni getur brostið. Farin er sama leið til baka. Skrautlegt grjót er á áraurunum, aðallega líparít og hrafntinna, og ef heppnin er með er hægt að finna græna hrafntinnu. Tilvalið er að skoða gufuhverina í hlíðum Reykjakolls í bakaleiðinni og jafnvel ganga á hann. Þaðan er gott útsýni yfir Jökulgil og Landmannalaugar. Brandsgil er nefnt eftir Brandi Brandssyni, einum fjögurra bræðra sem bjuggu ásamt móður sinni á Merkihvoli í Landsveit á fyrri hluta 19.aldar. Allir voru þeir bræður hraustir menn og harðgerðir, hugaðir vel, ötulir og úræðagóðir segir Guðni Jónsson í bók sinni Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur IV. Er talið að þessir eðlisþættir bræðranna hafi átt stóran þátt í því að þeir komust vel af miðað það sem gerðist á þeim tíma. Til eru margar sögur af svaðilförum þeirra inn til Veiðavatna til að draga björg í bú. Ekki er nákvæmlega vitað hvað bjó að baki því að gilin voru nefnd eftir Brandi.