Skálar í vetrardvala

Byrjað er að loka skálum Ferðafélags Íslands á hálendinu fyrir veturinn en nokkrir skálar verða þó opnir eitthvað aðeins fram eftir hausti og einn að mestu leyti í allan vetur.

Búið er að taka af vatn og hita og loka öllum skálum uppi á Kili þ.e. skálum FÍ í Einifellli við Hagavatn, í Hvítárnesi, Þverbrekknamúla og í Þjófadölum sem og skála FÍ á Hlöðuvöllum undir Hlöðufelli. Þá er Hornbjargsviti lagstur í dvala fyrir vetrarmánuðina og einnig Valgeirsstaðir, hús Ferðafélagsins í Norðurfirði á Ströndum.

Í þessari viku er svo unnið að lokun í Nýjadal en þegar hefur snjóað nokkuð á Sprengisandsleið og í fyrradag var komin 30 cm skafsnjór í veginn sem hefur þó tekið upp síðan.

Í næstu viku verður svo komið að skálum FÍ á Fjallabaki, þ.e. skálunum í Hrafntinnuskeri, við Álftavatn, Í Hvanngili og í Botnum á Emstrum. Í dag snjóaði í Hrafntinnuskeri en að öðru leyti er færð með ágætum og enn er þó nokkuð um göngumenn á Laugaveginum.

Skálavörður verður í Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi til 15. september og í Skagfjörðsskála í Langadal í Þórsmörk til 15. október. Hins vegar er gert ráð fyrir skálaverði í Landmannalaugum nánast óslitið í allan vetur. Þar hefur gæsla yfir vetrarmánuðina stöðugt aukist síðastliðin sex ár enda er staðurinn ekki síður vinsæll vetraráfangastaður.

Vetrarferðalangar sem hyggjast nýta sér skála Ferðafélagsins þurfa að hafa samband við skrifstofu FÍ í síma 568 2533 til að bóka skála og fá lykla. Og að sjálfsögðu þurfa þeir sem hyggja á haust- og vetrarferðir líka ætíð að fylgjast vel með veðurspá og kanna færð áður en haldið er upp á hálendið.