Kerstin Langenberger er einn skálavarða FÍ í Landmannalaugum. Veðurfarið undanfarið hefur verið svo gott að Kerstin fór frekar á Bláhnúk eina nóttina frekar en að sofa. Hún segir útsýnið hafa verið ótrúlegt og birta alla nóttina. Vissulega hafi vinnan daginn eftir verið aðeins erfiðari en næturgangan hafi þó verið vel þess virði eins og sjá má á þessum myndum sem Kerstin tók.
Annars er allt gott að frétta úr Landmannalaugum. Mikill fjöldi dagsgesta kíkti í heimsókn um helgina og eru skálaverðir því örlítið þreyttir en sáttir. Íslendingar virðast vera að sækja í sig veðrið og kíkja ekki bara í dagsferð í Landmannalaugar heldur gista einnig í skála, tjöldum og húsbílum. Það vekur athygli og gleði skálavarða að margir eru að koma í fyrsta sinn eða eftir margra ára fjarveru. Þá fer erlendum ferðamönnum einnig fjölgandi sem kemur skálavörðum ekkert á óvart enda fátt sem jafnast á við það að vera úti í náttúrinni.
Myndirnar sem Kerstin tók má sjá í eftirfarandi myndaalbúmi: