Skálum lokað á Laugaveginum

Þessa dagana er verið að loka skálum Ferðafélags Íslands í Hrafntinnuskeri, Álftavatni, Hvanngili og Emstrum. Þessir skálar hafa verið þéttsetnir glöðum ferðalöngum frá því snemma í vor enda áfangastaðir á hinum sívinsæla Laugavegi.
Þeir ferðalangar sem hyggjast eiga víst húsaskjól í þessum skálum verða því að hafa samband við skrifstofu FÍ í Mörkinni 6 og fá þar lykla að skálunum. Skrifstofan er komin á vetrartíma og opnar því ekki fyrr en kl. 12.00 og síminn þar er 568-2533.
Áfram verður opið um sinn í Langadal í Þórsmörk og í Landmannalaugum og þar verða skálaverðir. Búist er viða að þar verði haldið uppi gæslu fram eftir októbermánuði jafnvel allt til loka hans.
Þótt veður hafi verið nokkuð vot á þessum slóðum undanfarnar vikur er haustið afar góður tími til ferðalaga og þegar kuldinn sest að verður loftið tært og útsýni á fjöllum óviðjafnanlegt.
Fáir ferðamenn og þögn haustsins gera haustferðir oft sérlega eftirminnilegar. Því er ástæða til þess að hvetja fólk til fjallaferða á þessum árstíma og njóta fegurðar árstíðarinnar.

6

Dæmigerð vetrarstemning við skála FÍ í Landmannalaugum.