Kaldalón Reykjarfjörður. Um 30 km
Nánast engar líkur eru á því að snjór verði á gönguleiðunum á láglendi í lok maí. Hefðbundin gönguleið úr Kaldalóni og upp á Drangajökul hefst venjulega norðan við brúna yfir Mórilli og er síðan eftir láglendi um 2 km inn með hlíðinn inn að klettinum Keksi. Þessi hluti er að öllu jöfnu nokkuð blautur yfirferðar þar sem skiptast á margir lækir og mýrlendi. Þó skal tekið fram að Kaldalón er nokkuð snjóþungt og mun meiri líkur að það sé snjór þar en á láglendi á Hornströndum. Frá Keksi liggur leiðin upp á við og þá er fljótlega komið á snjó. Þessi hluti leiðarinnar eru um 11 km og er þá komið á hájökul á milli Hrölleifsborgar og Reiðarbungu.
Til greina kemur að fara af hájökli og ganga út á Hálsbungu og Reykjarfjarðarháls og koma niður í Reykjarfjörð úr vestri. Hugsanlega eru meiri líkur á að komast megi nær húsum á snjó á þessari leið en hinsvegar hefur Reykjarfjarðarjökull verið að skríða fram sl. ár og leiðin liggur yfir hann. Á þessari leið þarf ekki að vaða jökulána og því er hún mun vænlegri en sú leið að fara framhjá skriðjöklinum og koma niður í Reykjarfjörð úr suðri. Þetta verður þó að ráðast þegar nær dregur ferðinni og fréttir hafa fengist af jöklinum og snjóalögum. Hin leiðin liggur vestan við Miðmundarhorn og út í Fossadali og þaðan niður í Reykjarfjörð. Leiðin á láglendi frá Fossadaldheiði og heim í hús í Reykjarfirði er um 4 km og yfir jökulána Reykjarfjarðarós að fara. Engar líkur eru á snjó á þeim km og almennt er ljóst að hvaða leið sem valin verður er allar líkur á því að bera þurfi skíðin nokkra km í byrjun og lok fyrstu dagleiðar og allt að því 1/3 af leiðinni.
Reykjarfjörður Hrafnsfjörður. Um 20 km
Engar líkur eru á snjó á láglendi í Reykjarfirði og Þaralátursfirði í lok maí miðað við aðstæður í dag og ef aðstæður breytast ekki verður valin önnur leið til baka.. Leiðin liggur yfir Reykjarfjarðarháls og þvert yfir Þaralátursfjörð. Hálsinn er um 100m hár og gera má ráð fyrir því að lítill snjór verði fyrr en klifrið upp úr Þaralátursfirði hefst. Svartaskarð er hæðsti hluti leiðarinnar um 400m og er nokkuð bratt niður úr skarðinu niður á næsta hjalla. Þaðan er gengið fyrir Furufjörð og er nokur lækkun í dalbotninum og innan við 50m hækkun aftur til að komast vestur á Skorarheiði. Heiðin er stutt og er kemur vestur í Skor er aftur nokkuð brött brekka niður í Skorardal í Hrafnsfirði en þaðan er stutt til sjávar. Hrafnsfjörður er þekktur fyrir snjóþyngsli og því eru nokkrar líkur á því að hægt sé að komast á skíðum á snjó nánast alla leið til sjávar í Hrafnsfirði. Þetta ræðst þó mjög af tíðarfarinu og undanfarin ár hafa ekki verið snjóþung á þessu svæði.
Önnur leið verður farin til baka ef vantar snjó á láglendi.
Reykjarfjörður Unaðsdalur. Um 35 km
Þessi leið er um 5 7 km lengri en fyrsta dagleiðin. Lengingin er þó mest á flatlendi og í lækkuninni niður í Unaðsdal. Stefnt verður að því að fara af Hálsbungu til vesturs yfir á jökulbungu upp af Leirufirði, þaðan yfir á Öldugilsheiði og áfram niður Rjúkandisdal og Unaðsdal. Ekki er hægt að fullyrða með snjó alla leið niður Unaðsdalinn fyrr en nær dregur ferðinni. Í björtu veðri er gott útsýni yfir Jökulfirði af jökulbungunni.
Þröstur Jóhannesson, fararstjóri.