Skíðaganga á Pálmasunnudag - ferðasaga

Skíðgönguferð FÍ á Pálmasunnudag 16. mars 2008

 

Hvílikt veður, hvílíkt færi, hvílíkt fólk eru orð sem koma mér í hug eftir að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í menningarskíðagöngu á vegum Ferðafélags Íslands, eins og ég kýs að kalla ferðina sem farin var á Pálmasunndag 16. mars. Um miðja vikuna á undan benti veðurspá til þess að veður mundi verða þokkalegt en að það yrði alveg logn og sólskin allan tíman var meira en maður þorði að vona. Þegar ég leit yfir hópinn sem lagði upp frá Mörkinni kl. 9,00 um morgunin sá ég strax að þarna var ferðinni rjóminn af skíðahgöngufólki höfuðborgarinnar, samtals 25 manns, bæði karlar og konur í nokkuð jöfnum hlutföllum. Í fyrstu lá leiðin á Þingvöll þar sem farið var inn í kirkjuna. Þar fór undirritaður yfir sögu henar og bæjarins og las síðan 121 sálm úr Davíðssálmum.

Síðan lá leiðin inn að Svartagili. Þar fórum við úr bílnum og spenntum undir okkur skíðin. Þaðan gengum við upp vestan Svartagils og inn Gagnheiði með Súlnaberg á vinstri hönd. Mér segir svo hugur um að flestum hafi þótt gangan fyrstu tvær klst. nokkuð strembin meðan við  vorum að ná fullri hæð, enda var snjórinn talsvert harður. Eftir það var silikifæri alveg þar til við urðum að taka af okkur skíðin þar sem Botnsá fellur fram bjargbrúninni og Glymur verður til. Þarna tókum við fyrra kaffið.

Eftir að hafa náð fullri hæð sá vart á dökkan díl svo langt sem augað eygði. Þá kom upp í huga minn útvarpsviðtal sem Ari Trausti Guðmundsson átti við Þórarinn Björnsson þekktan fjalla og ferðafélagsmann, nú látin fyrir nokkrum árum. Eitt af því sem Ari spurði Þórarinn um var hvar hann teldi að framtíðarskíðasvæði Reykvíkinga mundi verða. Ekki stóð á svari frá Þórarni. Hann sagði að það mundi verða austan og norðan Botnssúlna. Eftir þessa göngu okkar er ég honum hjartanlega sammála því þarna eru endlausir möguleikar fyrir bæði svigskíðabrautir upp í hlíðum Botnsúlna og ekki síður fyrir gönguskíðafólk um heiðarnar þar norður og austur undan.

Þarna rifjuðum við upp atburði sem sagt er frá í Brennunjálssögu og áttu sér stað á þessum slóðum á seinni hluta tíundu aldar þegar Þjóstólfur þræll Hallgerðar Höskuldsdóttur varð manni hennar Glúmi að bana. Eina dóttir átti hún með Glúmi, Þorgerði sem síðar  varð kona Þráins Sigfússonar á Grjótá í Fljótshlíð. Samam eignuðust þau soninn Höskuld sem síðar varð Hvítanesgoði og seinni hluti Brennunjálssögu snýst að miklu leiti um.

Mér fannst merkilegt að sjá öll fjöllin í vetrarbúningi og í svona miklu návígi. Það leit  út eins Botnssúlurnar ætluðu að velta yfir mann. Héðan fór að halla undan niður að Hvalvatni. Það var virkilega  ljúft að renna sér yfir vatnið. Þegar komið var yfir það var komin tími fyrir seinna kaffið. Þaðan var stutt að hálendisbrúninni þar sem ekki var lengur hægt að koma við skíðunum vegna snjóleysis. Var þá ekki um annnað að ræða en að taka þau af sér og spenna á pokana. Gangan nður fjallshlíðina niður að Stórabotni tók rúman hálftíma. Þangað komum við klukkan nákvæmlega sex eftir sjö klst. göngu. Eg held ég mæli þar munn allra sem tóku þátt í ferðinni að betri skíðagöngu sé vart hægt að upplifa. Það er ekki mikið mál að vera fararstjóri á fjöllum við slíkar aðstæður og að auki með valin mann í hverju plássi.