Skiptimarkaður á heimasíðu FÍ

Notkun skiptimarkaðarins

Þeir sem hyggjast nota skiptimarkað Ferðafélags Íslands til að koma auglýsingum á framfæri verða að gefa upp notandaheiti, lykilorð og netfang. Hvorki stjórnandi vefsins né ritstjórar bera ábyrgð á hegðun og gerðum þátttakenda. Munið að allar auglýsingar sem settar eru inn á vefinn, eru opnar almenningi og því er notendum skylt að gæta að því að auglýsing þeirra samrýmist almennum siðareglum og háttvísi.

Markmið skiptimarkaðarins og notkunarskilmálar

Markmið skiptimarkaðar á vef Ferðafélags Íslands er að skapa vettvang viðskipta með notaðan útivistarbúnað. Þannig gefst fleirum kostur á að stunda útiveru og fjallamennsku án þess miklu þurfi að kosta til. Endurnýting er einnig af hinu góða og dregur úr óþarfa neyslu og sóun. Fyrirtækjum er ekki heimilt að auglýsa vörur sínar í smáauglýsingum nema með formlegu samþykki Ferðafélags Íslands. Óheimilt er að auglýsa illa fengna hluti.

Notendur eru hvattir til að setja sig í samband við skrifstofu Ferðafélagsins á fi@fi.is eða tilkynna misnotkun í gegnum skiptimarkaðskerfið, telji þeir efni eða auglýsingar sem birtar eru óviðeigandi á einhvern hátt. Ferðafélagið áskilur sér rétt til þess að fjarlægja eða breyta auglýsingum, teljist þær brjóta í bága við notkunarskilmála og almenna háttvísi.

Auglýsingar sem birtar eru geta innihaldið tengla á skrár og vefsíður sem óviðkomandi eru Ferðafélaginu. Félagið hefur enga stjórn eða ber nokkra ábyrgð á því innihaldi og getur ekki tryggt að innihaldið sé ekki óviðeigandi eða siðlaust. Við öllum ábendingum um auglýsingar sem vísa á slíkt efni verður brugðist og þær fjarlægðar.

Með því að samþykkja notkunarskilmálana, samþykkir þú einnig að þú, notandinn, sért lögráða. Þú tekur fulla ábyrgð á öllu efni eða skrám sem sett er inn í nafni þínu sem notanda. Einnig samþykkir þú að setja ekki inn efni háð höfundarrétti, sem þú átt ekki. Sem notandi vefsins og auglýsandi samþykkir þú að setja ekki inn efni eða auglýsingar sem talist geta siðlausar, ógnvekjandi, hatursfullar, kynferðislegar eða brjóta í bága við lög landsins.

Birtingartími

Hámarksbirtingartími auglýsinga í skiptimarkaðinum eru 30 dagar.  Að þeim loknum, verður viðkomandi auglýsingu eytt.  Þetta er gert til að lágmarka ruslsöfnun í skiptimarkaðskerfi FÍ.  Hver notandi getur verið með 5 auglýsingar í gangi í einu.