Skráning hafin í FÍ Landvætti

FÍ Landvættir fagna að loknu Jökulsárhlaupi í ágúst
FÍ Landvættir fagna að loknu Jökulsárhlaupi í ágúst

Búið er að opna fyrir skráningu í æfingaverkefnið FÍ Landvætti 2019. Kynningarfundur verður haldinn miðvikudaginn 24. október, kl. 20 í sal FÍ, Mörkinni 6.

Takmarkað pláss er í hópnum og skráningu lýkur um leið og hópurinn fyllist. Mikil ásókn er í verkefnið og við bendum fólki á að ganga sem fyrst frá skráningu til að tryggja sér pláss.

Skoða betur

Æfingar FÍ Landvætta hefjast í byrjun nóvember en verkefnið stendur í 10 mánuði og líkur í ágúst á næsta ári, 2019. Takmarkið er að ljúka öllum fjórum þrautum Landvættanna innan ársins 2019, þ.e. 50 km skíðagöngu, 60 km fjallahjólreiðum, 2,5 km útisundi og 33 km fjallahlaupi.

Þetta er æfingaverkefni fyrir þá sem vilja stunda líkamsrækt úti í náttúru Íslands, setja sér ögrandi markmið og komast í frábært líkamlegt form í þéttum, skemmtilegum og styðjandi félagsskap.

Ungvættir

Boðið verður upp á þá nýjung á næsta ári að þátttakendur í FÍ Landvættum geta skráð unglingana sína inn í sérstakt samhliða verkefni sem nefnist FÍ Ungvættir.

Það verkefni er hugsað fyrir krakka á aldrinum 12 til 18 ára sem taka þá minnstu vegalengdirnar í öllum Landvættaþrautunum. Þetta er 12,5 km skíðaganga í Fossavatnsgöngunni, 20 km fjallahjólreiðar í Bláalónsþrautinni, 400 m vatnasund í Urriðavatnssundinu og 13 km utanvegahlaup í Jökulsárhlaupinu.

FÍ Ungvættir munu æfa 1x-2x í mánuði á sama tíma og FÍ Landvættir og taka þátt í æfingahelgunum. Tveir þjálfarar halda sérstaklega utan um hópinn og fylgja krökkunum í keppnisþrautunum.

Með þessu móti geta fjölskyldur gert Landvættaverkefnið að sameiginlegu markmiði sínu og á sama tíma aukið samveru í skemmtilegri hreyfingu og útivist.

Verkefnið FÍ Ungvættir verður nánar kynnt á kynningarfundi FÍ Landvætta. Verð í verkefnið er 35.000 kr. fyrir ungling.