Um helgina efndi Ferðafélag Íslands til hópferðar í Þórsmörk. Stór hópur fólks sem er þátttakendur í verkefninu Eitt fjall á viku hélt á vit óvissunnar inn í Mörkina til að safna fjallatoppum og skyldi ná fimm tindum yfir helgina.
Þegar komið var inn undir Gígjökul og hvergi sá á dökkan díl heldur kolgrátt öskumistur blasti við á allar hendur má segja að menn hafi upplifað visst áfall.
Eftir því innar dró sáust brattar hlíðar Stakkholts undir öskufargi þar sem aðeins einn og einn gróðursproti teygir sig í gegn. Þykkt teppi af gráleitu ryki liggur sem voð yfir öllu sléttlendi. Þegar komið er inn fyrir Hvanná batnar ástandið heldur og í Langadal eru túnin kringum skálann græn þótt þykkt lag af sandi og ösku sé í sverðinum. Skógurinn er sprunginn út en græni liturinn berst við þann gráa. Hvar sem stigið er niður fæti þyrlast upp ryk og aska.
Við gengum um kvöldið upp á Valahnúk og lituðumst um. Vindinn hafði lægt og margar vísbendingar sáust um gott veður daginn eftir. Þá var stefnt á Rjúpnafell og við gengum þangað í rykinu gegnum skóginn og grasið en heldur minna af ösku er á svæðinu kringum Rjúpnafellið. Á bakaleið renndum við okkur upp á Tindfjöllin og síðan niður Stangarhálsinn. Menn koma krímóttir og svartir en glaðir í sinni aftur í skála og stilltu sér í röð eftir sturtu.
Daginn eftir var haldið yfir Krossá og gengið á Réttarfell og Útigönguhöfða og það voru sigrihrósandi ferðalangar sem settust um borð i rútur og héldu grútskítugir heim á leið.
Allir ferðalangar unna Þórsmörk og eiga hugljúfar minningar þaðan. Þær minningar snúast margar um angandi náttúru, fuglasöng, rómantík og birkiangan. Þórsmörkin okkar er sannarlega ekki sjálfri sér lík en það er samt magnað að sjá og upplifa þessi áhrif náttúruhamfaranna á eigin skinni og sjá með eigin augum hvað birkið og gróðurinn býr yfir miklu krafti og hvað það berst af mikilli hörku fyrir tilvist sinni.
Ég sá fjölda fugla, heyrði suð í hunangsflugum um allan skóg og sá köngulær skríða í öskunni. Undir trjárótum rétt við Skáldagil áttu tvær bústnar hagamýs holu sína og við fylgdumst með bústangi þeirra kvölds og morgna. Þannig heldur náttúran áfram því ekkert stöðvar lífið.
Pall Asgeir Asgeirsson, fararstjori FI