Snjólítið að Fjallabaki

Fremur snjólítið er að Fjallabaki þessa dagana og vetrarferðalangar eru hvattir til að fara þar varlega. Stefán Jökull Jakobsson, umsjónarmaður skála Ferðafélagsins, tók meðfylgjandi myndir á ferð sinni um Fjallabak í síðustu viku þar sem hann hugaði að fjallaskálunum og kannaði snjóalög.


Skálarnir í Hvanngili

Stefán segir að almennt sé lítill snjór að Fjallabaki miðað við venjulegt árferði. Þetta þýðir meðal annars að lítill snjór liggur yfir Jarðfallinu á vetrarleiðinni inn í Landmannalaugar og þar þurfa ferðalangar bæði á jeppum og vélsleðum að gæta vel að því að vernda gróður og landslag og kappkosta að velja leiðir þar sem hægt er að aka á snjó svo að mosinn tætist ekki upp.


Skálarnir við Álftavatn

Skálaverðir eru í Landmannalaugum í allan vetur og umferð eykst nú jafnt og þétt með hækkandi sól og aukinni birtu. Hægt er að bóka gistingu og nálgast lykla að öðrum skálum Ferðafélagsins á Fjallabaki, þ.e. Emstrum, Hvanngili og Álftavatni og á Kili, þ.e. Hagavatni, Hvítárnesi, Þverbrekknamúla og í Þjófadölum á skrifstofu FÍ, Mörkinni 6 á virkum dögum á milli kl. 10 og 17 eða í síma: 568 2533.


Botnaskáli í Emstrum

Ekki er hægt að bóka gistingu í Hrafntinnuskeri í vetur en anddyri skálans er opið fyrir neyðartilfelli. Þeir sem fara um Hrafntinnusker á vélknúnum ökutækjum í vetur er bent á að búið er að reisa þar nýtt skálavarðahús, sem stendur vestanmegin við Höskuldsskála. Nýja húsið er alveg hulið snjó og því þarf að fara mjög varlega við skálann til að skemma hvorki tæki né hús.



Höskuldsskáli í Hrafntinnuskeri. Rétt glittir í nýja skálavarðahúsið fyrir framan skálann.