Fremur snjólítið er að Fjallabaki þessa dagana og vetrarferðalangar eru hvattir til að fara þar varlega. Stefán Jökull Jakobsson, umsjónarmaður skála Ferðafélagsins, tók meðfylgjandi myndir á ferð sinni um Fjallabak í síðustu viku þar sem hann hugaði að fjallaskálunum og kannaði snjóalög.
Skálarnir í Hvanngili
Stefán segir að almennt sé lítill snjór að Fjallabaki miðað við venjulegt árferði. Þetta þýðir meðal annars að lítill snjór liggur yfir Jarðfallinu á vetrarleiðinni inn í Landmannalaugar og þar þurfa ferðalangar bæði á jeppum og vélsleðum að gæta vel að því að vernda gróður og landslag og kappkosta að velja leiðir þar sem hægt er að aka á snjó svo að mosinn tætist ekki upp.
Skálarnir við Álftavatn
Skálaverðir eru í Landmannalaugum í allan vetur og umferð eykst nú jafnt og þétt með hækkandi sól og aukinni birtu. Hægt er að bóka gistingu og nálgast lykla að öðrum skálum Ferðafélagsins á Fjallabaki, þ.e. Emstrum, Hvanngili og Álftavatni og á Kili, þ.e. Hagavatni, Hvítárnesi, Þverbrekknamúla og í Þjófadölum á skrifstofu FÍ, Mörkinni 6 á virkum dögum á milli kl. 10 og 17 eða í síma: 568 2533.
Botnaskáli í Emstrum