Söguleg ferð í Hvanndali

Hópur á vegum Ferðafélagsins lagði á sig 6 klukkustunda klöngur um Hvanndalsskriður og óðu sjóinn til að endurtaka erfiða göngu konu einnar fyrir 150 árum sem þurfti fara, með ársgamalt barn í fanginu til að sækja eld á næsta bæ.

30 manna hópur á vegum Ferðafélags Íslands hélt upp í gönguna frá Héðinsfirði nú um helgina. Hluta leiðarinnar gekk Guðrún Þórarinsdóttir árið 1859. Hún bjó í Hvanndölum sem er ein afskekktasta byggð sem hefur verið á landinu, segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands og fararstjóri í ferðinni.

Eldurinn slokknaði á bæ Guðrúnar og hún þurfti að fara og sækja eld. Þetta var að vetri til og Guðrún komst ekki hefðbundna leið og þurfti því að fara niður í fjöru og ganga fyrir Hvanndalsskriður. Páll segir að gangan hafi verið erfið.

Hann segir einnig að veðrið hafi verið stillt og fagurt þegar hópur Ferðafélagsins fór fyrir skriðurnar. Guðrún var ekki eins heppin með veður. Hún komst klakklaust yfir til Víkur þar sem hún fékk eld. Hún skildi eins árs gamla dóttur sína eftir þar og bóndinn í Vík sigldi svo með Guðrúnu aftur yfir í Hvanndali. Þar biðu tvö börn hennar eftir henni en bóndinn var á hákarlaveiðum.