Sumum finnst skemmtilegast að tína skeljar og steina, á meðan aðrir vilja veiða sprettfiska og velta við steinum til að skoða marflær. Fjaran er ævintýraheimur fyrir alla. Á dögunum fór Ferðafélag barnanna í fjörurannsóknarleiðangur út í Gróttu.
Ferðin var hluti af samstarfsverkefni Ferðafélags Íslands og Háskóla Íslands sem nefnist Með fróðleik í fararnesti. Eins og nafnið gefur til kynna er verið að sameina útiveru og fræðslu. Það sem af er ári hafa hátt í tvöþúsund manns mætt í þessar skemmtilegu ferðir sem eru afar fjölbreyttar og nefna má kræklinga- og sveppatínsluferðir, álfaferðir og stjörnuskoðun. Sjá alla dagskrá Ferðafélags barnanna hér.
Í fjöruferðinni fræddu Hrefna Sigurjónsdóttir, prófessor og Kristín Norðdahl, lektor, báðar frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands þátttakendur um allt sem börn og fullorðnir fundu í sjónum, sandinum og í þaranum. Og það var sko margt sem rak á fjörur hópsins meðal annars þrjár tegundir af kröbbum, tvær fisktegundir, fjölmargir kuðungar og ýmis konar smádýr.