Uppfært 30.5.2019 - Hálendið & opnanir skála
Búið er að opna veg 208 frá Sigöldu og Dómadalsleið F225 að Landmannalaugum. Enn margir fjallvegir lokaðir og akstursbann er á flestum F-vegum sökum aurbleytu. Stefnt er að opnun allra skála fyrir aðra helgi (8.-9. júní). Reglulegar rútuferðir hefjast í kringum 14. júní.
Þórsmörk og Goðaland
Búið er að hefla veginn inn að Básum en þó aðeins fært fyrir stærri 4x4 bíla. Krossá er mjög varasöm nú og er ekki ráðlagt að fara yfir hana nema á breyttum bílum með reynda bílstjóra. Mjög mikilvægt að þekkja vöðin vel. Þokkalega gott ástand á gönguleiðum á svæðinu.
Fimmvörðuháls
Mikill snjór er á leiðinni, erfitt færi og þó sé komið sumar þá er þar allra veðra von. Skálar á Fimmvörðuhálsi eru lokaðir. Keðjan á Heljarkambi er á kafi í snjó og þar eru hættulegar aðstæður.
Landmannalaugar
Búið að opna 208 frá Sigöldu og Dómadalsleið F225 að Landmannalaugum en þó aðeins fært stærri fjórhjóladrifsbílum/jeppum.
Laugavegurinn
Ekki er ráðlagt að ganga Laugaveginn núna þar sem skálar milli Landmannalauga og Þórsmerkur eru lokaðir og því ekkert skjól fyrir slæmu veðri. Mjög þungt færi á leiðinni og mikill snjór milli Landmannalauga og Álftavatns.
Kerlingarfjöll
Lítill snjór á svæðinu miðað við árstíma. Jarðvegurinn er mjög blautur og nauðsynlegt að halda sig á merktum stígum og vegum. Jeppafært er inn að Hveradölum. Kjalvegur (35) er fær stærri jeppum.
Eldri fréttir af hálendinu:
Uppfært 21.5.2019 - Staðan á hálendinu: Þórsmörk opin, lokað í Landmannalaugum
Við hjá Ferðafélagi Íslands vinnum hörðum höndum að koma skálum í gagnið fyrir sumarið og fáum talsvert af fyrirspurnum um stöðu mála á hálendinu.
Þórsmörk
Langidalur í Þórsmörk er opinn og bjóðum við fólk velkomið þangað.
Landmannalaugar
Vegagerðin, í samstarfi við Umhverfisstofnun, ákveður hvenær opnað skuli vegi inn í Landmannalaugar. Stefnt er á að verði opnað þangað í byrjun næstu viku, en það getur auðvitað breyst ef aðstæður breytast.
Færð á hálendinu
Gott er að fylgjast með heimasíðu Vegagerðarinnar, þar er hægt að sjá lokanir á vegum og hvort sé búið að opna fjallvegi. Einnig er vert að minnast á Safetravel, þar er einnig hægt að fá góðar upplýsingar um mikilvæga hluti sem snúa að ferðalagi á hálendi, svo sem aðstæður, opnanir og lokanir vega.
Heimasíða vegagerðarinnar: vegagerdin.is
Heimasíða SafeTravel: safetravel.is
Laugavegurinn
Gönguleiðin vinsæla frá Landmannalaugum í Þórsmörk er einnig lokuð enda enga þjónustu að fá á þeirri leið fyrr en skálar opna. Við suma skála ríkja enn vetraraðstæður eins og sjá má á mynd með þessari frétt úr Hrafntinnuskeri sem tekin var nú í vikunni.
Stefnt er á að opna gönguleiðina um miðjan júní.