Stjörnu- og norðurljósaskoðun nk. laugardag

Ferðafélag barnanna, FÍ og HÍ standa fyrir stjörnu- og norðurljósaskoðun:

30. janúar, laugardagur.

Brottför: Kl. 20 á einkabílum frá skrifstofu FÍ, Mörkinni 6.

Af hverju eru stjörnur mismunandi á litinn og hvers vegna sjást norðurljósin bara stundum?

Sævar Helgi Bragason, verkefnisstjóri við Háskóla Íslands og kennari í Háskólalestinni, svarar öllum spurningum um norðurljósin, stjörnurnar og vetrarbrautina í gönguferð sem helguð er himingeimnum.

Þátttakendur safnast saman við skrifstofu FÍ í Mörkinni 6 kl. 20 á laugardagskvöld og aka í halarófu út fyrir borgarmörkin, upp í Heiðmörk, framhjá Rauðhólum og að Elliðabænum við Elliðavatn. Þar leggjum við bílunum (passa að raða þeim vel svo allir komist fyrir) og göngum aðeins meðfram vatninu.

Afar mikilvægt er að allir séu vel klæddir. Það má jafnvel stinga einhverri sessu eða gamalli frauðdýnu ofan í bakpokann því auðvitað er allra best að skoða himingeiminn liggjandi á jörðinni og þá er gott að liggja / sitja á einhverju sem einangrar rassinn frá jörðinni!

Auk þess að klæða sig afar vel, mælum við með því að fólk taki með sér kíki og nesti, sérstaklega er gott að taka með sér eitthvað heitt á brúsa, því í kuldanum er gott að fá heitan drykk í kroppinn.

Gert er ráð fyrir að ferðin taki um 2 klst.

Ef ekki viðrar til himinskoðunar þennan dag verður ferðinni frestað þangað til góðar aðstæður skapast og það auglýst á fésbók og heimasíðu.

Hluti af samstarfsverkefni Ferðafélags Íslands og Háskóla Íslands: Með fróðleik í fararnesti.

Þátttaka ókeypis og allir velkomnir.

.........

Athugið að þessi ferð átti að vera degi fyrr, þ.e. föstudagskvöldið, 29. jan. en hefur verið frestað um sólarhring vegna veðurs.