Stofnfundur Ferðafélags Árborgar

Ferðafélag á Árborgar

Til stendur að stofna á Selfossi Ferðafélag Árborgar, sem verður deild í Ferðafélagi Íslands. Ferðafélög  þessi byggja á fjölbreyttri starfsemi. Fyrirferðamesti þátturinn er vafalaust hvers kyns gönguferðir og ferðalög  til að kynna náttúru landsins og sögu merkra staða. Þá stuðlar félagið að merkingu gönguleiða í óbyggðum og byggingu og rekstri á sæluhúsum svo eitthvað sé nefnt. Vonandi verður hægt að setja saman áhugaverða sumardagskrá og bjóða upp á margs konar gönguferðir og hvers kyns aðra útivist. Félagsmenn greiða sama árgjald og njóta allra réttinda í móðurfélaginu m.a. afslátts af skálagistingum og  í helstu útivistarverslunum og fá á hverju ári árbók FÍ.

Stofnfundur Ferðafélags Árborgar  verður haldinn fimmtudagskvöldið  12. mars n.k. í Karlakórsheimilinu að Eyravegi 67 á Selfossi, kl: 20:00.  Forseti FÍ og framkvæmdastjóri verða  mæta og kynna starfsemi félagsins.   Allir velkomnir. Kaffiveitingar.

Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ segir að nú sé einnig á döfinni að stofna Ferðafélög á Snæfellsnesi og á Raufarhöfn.  ,,Það er tilvalið að stofna Ferðafélagsdeild í öllum bæjum og sveitum og stuðla þannig að gönguferðum og heilbrigðri útiveru í sínum heimabæ, sem og að vinna að öðrum skemmtilegum verkefnum í anda FÍ," segir Páll.

Ferðafélag Íslands var stofnað 1927 og hefur í 82 ár unnið að uppbyggingu á aðstöðu og þjónustu fyrir ferðamenn, staðið fyrir ferðum, byggt upp og rekið skála á hálendinu, gefið út árbækur og staðið fyrir fræðslu og útgáfu um náttúru og ferðamennsku.