Stofnun áhugamannafélags um jarðfræði

Kæru leiðsögumenn, nemar og aðrir góðir hálsar.

Við, Tryggvi Jakobsson og Finnur P. Fróðason sem báðir erum að ljúka leiðsögunámi við Endurmentun HÍ, höfum að undanförnu rætt um möguleika á að stofna til áhugamannafélags um jarðfræði. Eftir því sem við best vitum er ekkert slíkt félag til hér á landi. Erlendis eru þau hins vegar algeng og stundum koma hingað einstaklingar eða hópar sem tengjast slíkum félögum til að kynna sér betur það sem landið hefur upp á að bjóða í þessum efnum. Á Íslandi hefur Jarðfræðafélag Íslands starfað með blóma undanfarna áratugi, en það er fyrst og fremst vettvangur fræðimanna og sérfræðinga í jarðvísindagreinum. Jöklarannsóknafélagið er blandaður félagsskapur og Fuglavernd líka, en það sem við höfum í huga er vettvangur fyrir áhugamenn um jarðvisindi almennt til að koma saman - og helst að komast í samband við sambærileg félög úti í hinum stóra heimi.

Hugmyndin er að hittast nokkrum sinnum á ári, ýmist á fræðslufyrirlestrum eða í vettvangsferðum, og leita til sérfræðinga um að koma með innlegg, allt eftir áhuga og/eða aðstæðum hverju sinni, t.d. ef einhverjir þeir atburðir verða sem kalla á að um þá sé fjallað. Við viljum að yfirbyggingin verði sem allra minnst og reglur félagsins einfaldar í sniðum, svo jafnvel verði hægt að komast hjá því að leggja á félagsgjöld og halda utanum slík leiðindi. Þetta á bara að vera gaman.

Ólafur Örn Haraldsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Þingvallaþjóðgarðs og forseti Ferðafélags Íslands, brást vel við óskum okkar um fundaaðstöðu í húsnæði Ferðafélagsins í Mörkinni 6. Að vísu hefur rekstur sala þar verið falinn einkaaðilum, en um er að ræða einskonar fordyri aðalsalarins sem getur tekið allt að 50 manns í sæti. Þetta er í skoðun.

Með þessum tölvupósti viljum við kanna hvort áhugi er innan okkar raða á að koma svona félagsskap á legg. Verði viðbrögðin jákvæð verður boðað til formlegs stofnfundar á næstunni, þar sem lögð verða fram drög að skipulagi félagsins og starfi þess, hvernig staðið verður að kynningu og tilkynningum um atburði og félaginu kosin stjórn. Einnig er stefnt að því að fá sérfræðing, sem ekki þarf að kosta okkur of mikið, til að fjalla t.d. um jarðfræði höfuðborgarsvæðisins. Menn gætu því fengið vasafylli af praktík um höfuðborgarsvæðið í leiðinni.

Við biðjum þá sem áhuga hafa á að vera með í að stofna félagið vinasmlegast um að svara þessum pósti á
tryggvi.jakobsson@gmail.com eða finnurp@simnet.is fyrir bóndadag 22. janúar. Hinir láta þetta bara framhjá sér fara.

Með bestu kveðju,
Finnur og Tryggvi Jak.