Glóðvolgri og stútfullri Ferðaáætlun Ferðafélags Íslands fyrir árið 2013 verður dreift til félagsmanna í byrjun janúar og byrjað verður að bóka í allar ferðir félagsins mánudaginn 7. janúar. Hægt er að skoða ferðaáætlunina á heimasíðu FÍ frá deginum í dag en bókanir hefjast síðan 7. janúar.
Ferðaáætlunin er beinlínis bólgin af skemmtilegum ferðum og alls konar nýjungum, meðal annars stigvaxandi gönguskíðaferðum, ferðum á nýja toppa í Öræfafjöllunum, sögugöngu á slóðir Íslendingasagna, ferðum um háhitasvæði landsins í samstarfi við Landvernd, jógaferðum, alls konar ævintýralegum barna- og fjölskylduferðum, ferð þar sem blandað er saman göngu, hjólreiðum og siglingu, hringferðum um fjallatoppa og skundi eftir endilöngum fjallgörðum, göngum um eyðibyggðir, söguslóðir, þjóðleiðir, þjóðgarða, draugaslóðir, grónar grundir og eyðisanda, fræðsluferðum í samstarfi við Háskóla Íslands og margvíslegum göngum með heimamönnum í hinum ýmsu deildum Ferðafélags Íslands um allt land.