Sumarnætur

Hvað er fegurra eða friðsælla en töfrar íslenskrar sumarnætur þegar jörðin ilmar af gróðri, fjöllin dotta ofan í lognkyrr vötnin og jörðin sefur? Þetta er tíminn þegar döggin glitrar á birkilaufi og lyngi, þegar birtubrigðin slá bjarma yfir land og haf. Tíminn þegar öll skilningarvit opna sig fyrir magni náttúrunnar, þögnin verður allt að því hávær og okkur finnst við heyra jörðina anda.

Einmitt þá er ómótstæðilegt að reima á sig gönguskóna og ganga inn í bjarta nóttina.

Í sumar mun Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir leiða kvöldgöngur á vit sumarnæturinnar þar sem við öndum að okkur gróðurmagni og orku, virðum fyrir okkur grös og steina og meðtökum töfra íslenskrar náttúru í ýmsum tilbrigðum. Um leið verða rifjaðar upp sagnir og  fróðleikur um lífið í okkar fallega landi, eftir því sem við á.

Farnar verða 3-5 klst langar gönguleiðir í nágrenni höfuðborgarinnar, farið af stað kl. 18 síðdegis með rútu frá skrifstofu Ferðafélag Íslands og komið til baka um miðnæturbil. Fyrsta gangan verður að kvöldi föstudaginn 7. Júní.

Föstudagur 7. júní – Glymur í Hvalfirði, 5-6 km – 2-3 klst.
Glymur er hæsti foss landsins og rennur í eitt hrikalegasta og dýpsta gil á Íslandi, beint upp af Stóragili fyrir botni Hvalfjarðar. Fossinn og Hvalvatnið fyrir ofan hann eru sögusvið ævintýralegrar þjóðsögu um ástir, svik og illvætti. Gilið og fossinn eru stórbrotið náttúruundur. Torfarin leið á kafla.
Nánari upplýsingar og skráning

Föstudagur 21. júní – Kolviðarhóll, Marardalur, 13 km, 5-6 klst
Marardalur er sérkennilegt náttúruundur norðan megin í Henglinum, lítill dalur, umlukinn á alla vegu. Þarna héldu bændur nautum sínum til beitar á öldum áður, en nafnið gefur til kynna að þar hafi einnig verið geymd hross. Í næsta nágrenni eru ýmsar þjóðsagnaslóðir sem rifjaðar verða upp í þessari göngu sem hefst við Kolviðarhól og liggur um Engidal í Marardalinn. Sama leið gengin til baka.

Föstudagur 19. júlí – Kvígindisfell á Uxahryggjaleið, 5 km, 2-3 klst
Hér erum við komin á slóðir „Skúlaskeiðs“ sem Grímur Thomsen orti svo fagurlega um. Haldið er af stað norðan Víðikera og austan Hvannadala á Uxahryggjaleið og gengin auðveld leið upp á Kvígindisfellið. Þaðan er geysivíðsýnt til allra átta, bæði jöklasýn og fjalla, allt norður í Húnavatnssýslu þegar best lætur. Þarna fáum við að upplifa landslag eins og inni á reginöræfum, samhliða mikilli fjallasýn.

Föstudaginn 2. ágúst - Þyrill í Hvalfirði 9 km – 3,5 klst
Gengið frá Botnsskála í Hvalfirði fremur auðvelda leið um Síldarmannabrekkur upp á fjallið Þyril sem setur sterkan svip á innsta hluta Hvalfjarðar þar sem það gnæfir hömrum gyrt og þverhnípt. Leiðin upp er þó auðveldari en ætla mætti við fyrstu sýn. Af tindinum virðum fyrir okkur útsýnið yfir fjöllin sem liggja að Hvalfirði og fegurð hins gróðursæla Hvalfjarðarbotns. Höldum síðan sömu leið til baka.