Sumarsólstöðuganga á Botnssúlur

Föstudaginn 22. júní n.k. efnir Ferðafélag Íslands til sólstöðugöngu á Botnssúlur. Lagt er af stað úr Mörkinni 6 kl. 18.00 og ekið upp í Hvalfjörð þar sem gangan hefst við Stóra-Botn. Gengið er sem leið liggur upp á Vestursúlu sem er 1086 metrar á hæð.
Þar mun hópurinn standa á miðnætti og upplifa hina einstöku töfrastemmningu á fjöllum á Jónsmessunótt þegar óskasteinar fljóta upp og álfar fara á kreik.
Áætluð vegalengd er 15 km. og áætluð hækkun um 1000 metrar. Hópurinn verður líklega aftur við rútur um kl. 03.00 um nóttina.
Í tengslum við gönguna býðst harðsnúnum ferðalöngum að halda áfram af Vestursúlu og ganga á Háusúlu, Miðsúlu og Syðstusúlu og halda svo niður að Svartagili á Þingvöllum. Þetta er erfið og krefjandi ganga sem mun taka um 10 tíma.
Verð í sólstöðugönguna 6000 kr fyrir félagsmenn en 8000 kr. fyrir aðra. Þeir sem koma á einkabílum að Stóra-Botni greiða 5000 kr.
Leiðsögumenn frá Ferðafélagi Íslands stjórna för og fara fremst þeir Páll Guðmundsson, Páll Ásgeir Ásgeirsson, Rósa Sigrún Jónsdóttir, Sigríður Lóa Jónsdóttir og Ævar Aðalsteinsson sem mun leiða förina um súlurnar allar að Svartagili.
Skráning á skrifstofu Ferðafélags Íslands í síma 568-2533. Missið ekki af einstöku ævintýri í næturgöngu á tignarlegustu fjöll í nágrenni Reykjavíkur.