Sumarsólstöðuganga á Snæfellsjökul 18.júní

Brottför frá Mörkinni 6 kl. 17 og ekið vestur að jökli. Stutt stopp og fræðsla að Hellnum um þjóðgarð og jökul. Lagt af stað í gönguna kl. 21 og er gengið úr Eysteinsdal að norðanverðu og þar upp sérlega fallega og fáfarna gönguleið. Þátttakendur baða sig í miðnætursólinni á tindi Snæfellsjökuls um miðnættið. Nokkrir listamenn verða með nokkurs konar gjörninga í leiðangrinum og gefst þátttakendum kostur á leggja sitt af mörkum.
 Ferðin er farin í samstarfi við Þjóðgarðinn Snæfellsjökul og fylgja landverðir hópnum. Ferðafélag Íslands og Þjóðgarðurinn beita sér fyrir því að umferð vélknúinna ökutækja verði ekki á jökli þennan dag.

Verð: 5000 / 7000 í einkabíl - 7000 / 9000 með rútu.

Skráning og greiðsla fyrir 1. júní

Sumarsólstöður eru dularfullur tími. Þá fljóta óskasteinar uppi í tjörnum og óútskýranlegir hlutir gerast. Náttúran öll hefur á sér yfirbragð frjósemi og lífmagns sem er svo kröftugt að fáir standast áhrif þess. Sérstök upplifun er að ganga á vit náttúrunnar á þessari sérstöku stund í tímatalinu og njóta hinnar björtu sumarnætur sem aldrei verður bjartari en einmitt þá.

Ferðafélag Íslands hefur áratugum saman boðið upp á sérstakar fjallgöngur um sumarsólstöður. Að þessu sinni verður gengið á magnaðasta fjall landsins, Snæfellsjökul og ætlunin að standa á toppi fjallsins skömmu eftir miðnætti og fylgjast með sólinni skríða nálægt eldrauðum haffletinum.

Snæfellsjökull er 1446 metra hár og óumdeilt meðal fegurstu fjalla landsins. Þangað eru tíðar ferðir með snjóbílum og hvers kyns vélknúnum ökutækjum en Ferðafélag Íslands fer að sjálfsögðu gangandi á tindinn.

Þeir sem fyrstir gengu á Snæfellsjökul svo vitað sé með vissu voru landkönnuðirnir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson. Þeir gengu á jökulinn hinn 1. júlí 1753 og stóð ferð þeirra í 11 klst. Meðferðis höfðu þeir áttavita, hitamæli, loftvog, sterka taug ef bjarga þyrfti manni úr sprungu og njarðarvött vættan með ediki til að þefa af ef loftið yrði of þunnt. Þeir gengu á íslenskum skóm og höfðu slæðu fyrir augum til að verjast snjóbirtu og komust upp á hæstu jökulþúfuna með því að höggva spor með hnífum og broddstöfum í ísinn. För þeirra þótti vera hreint glapræði og fífldirfska.

Ferðafélag Íslands verður ekki með njarðarvetti og edik í för sinni heldur nóg af góðu skapi og göngugleði. Lagt verður af stað frá Reykjavík kl. 21.00 að kvöldi og ekið vestur undir Jökul. Ekið verður vestur og norður fyrir jökulinn og lagt af stað úr Eysteinsdal sem er leynidalur norðan við Hreggnasa og þaðan gengið fáfarnar og fagrar slóðir á vit jökulsins.

Snæfellsjökull hefur alltaf þótt búa yfir sérstöku dulmagni og jafnvel hversdagslegustu ferðalangar verða undarlega hulduhrútslegir þegar jökulinn nær valdi á þeim.

„Ég býst fastlega við að orka jökulsins leiði óþekkta krafta úr læðingi,“ segir Páll Guðmundsson fararstjóri sem rifjar einnig upp þegar lendingu geimvera var spáð á Snæfellsjökli fyrir fáum árum og hópur manna beið árangurslaust í heilt dægur eftir heimsókn úr öðru sólkerfi.

Ferðin er farin í samstarfi félagsins við Þjóðgarðinn Snæfellsjökul og verða leiðsögumenn þjóðgarðsins með í för. Félagið og þjóðgarðurinn munu beita sér fyrir því að þetta tiltekna kvöld og nótt verði ekki umferð vélknúinna ökutækja um jökulinn svo göngumenn fái notið kyrrðarinnar ósnortnir af gný nútímans.

Fararstjórar í þessum leiðangri verða hjónin Páll Guðmundsson og Auður Elva Kjartansdóttir og njóta þau aðstoðar leiðsögumanna Ferðafélagsins eftir þörfum en þátttaka í sólstöðugöngum félagsins undanfarin ár hefur stundum hlaupið á hundruðum farþega.
Gera verður ráð fyrir að gangan frá bílum upp á topp jökuls og til baka taki um 4-5 tíma svo þátttakendur verða ekki komnir aftur til Reykjavíkur fyrr en undir morgun næsta dags.