Næstkomandi laugardag 31. maí efnir Ferðafélag Íslands í samvinnu við Trex til dagsferðar í náttúruperluna Þórsmörk. Brottför er kl.08,00 að morgni frá Ferðafélagshúsinu Mörkinni 6 og ekið í Mörkina sem þegar er farin að skarta sumarskrúða, en þangað verður komið undir hádegið. Deginum verður eytt í gönguferð frá Langadal á vit þjóðsagna og ævintýra, en áætluð heimkoma er kl.20,00. Þátttakendur hafa með sér nesti og eitthvað á grillið, en kynnt verður undir kolunum í lok göngunnar. Heitt verður á könnunni í Skagfjörðsskála. Þetta verður fróðleg og skemmtileg ferð við allra hæfi undir fararstjórn Kristjáns M. Baldurssonar. Verð er kr.7.000 og hálft gjald þ.e. 3.500 kr fyrir 7 - 15 ára. Bókanir eru hjá Ferðafélagi Íslands s. 568 2533, fi@fi.is