Sundmannakláði í Landmannalaugum

Nokkuð hefur borið á svokölluðum sundmannakláða meðal baðgesta í Landmannalaugum seinnihluta sumars og í haust. Sundmannakláði eru kláðabólur sem sundlirfur fuglasníkjudýra valda eftir að hafa smogið gegnum húð manna.
Bólurnar geta valdið talsverðum kláða og myndað litlar blöðrur. Ekki er vitað til þess að þessi sníkjudýr valdi mönnum skaða og þótt óþægindin séu allnokkur hverfa einkennin fljótlega. Mest ber á þessum sníkjudýrum seinnihluta sumars og fram eftir september en eftir það dregur úr áreiti þeirra.
Rétt er því að ferðalangar sem hyggja á baðferðir í Landmannalaugum viti af þessu og fari í lækinn á eigin ábyrgð.
Á árunum 2003 til 2004 bar talsvert á sníkjudýrum þessum og þá rannsakaði dr. Karl Skírnisson útbreiðslu þeirra og skrifaði fróðlega grein um rannsóknir sínar í Læknablaðið. Þar má lesa ítarlega úttekt á hegðun, útbreiðslu og lífsháttum sundlirfanna sem geta þrifist í ám og vötnum um land allt séu réttar aðstæður fyrir hendi.
Dr. Karl taldi einsýnt að búseta og varp stokkanda á eða við heita lækinn í Landmannalaugum væri höfuðorsök þess faraldurs sem hann rannsakaði árin 2003 og 2004. Heimildir eru um að sundmannakláða hafi stundum orðið vart í Laugum um áratuga skeið en aldrei eins og þau ár sem um ræðir.

Laugar-fólk í baði

Ungir ferðamenn baða sig í heita læknum í Landmannalaugum.