Sungið fyrir álfana

Ferðafélag barnanna greip tækifærið á Jónsmessunni og heilsaði upp á álfa og huldfólk á Vífilsfelli. Veðurguðirnir léku við allar náttúruverur á kreiki; börn og álfa og jafnvel foreldrana líka!

Sungið á Vífilsfelli

Um þrjátíu manns gengu á Vífilsfellið á Jónsmessunni, sunnudaginn 24. júní í fullkomnu fjallgönguveðri. Börnin í hópnum voru svo dugleg að fullorðna fólkið mátti hafa sig allt við. Gengið var upp á danspall álfanna, um hálfa leið upp á fjallið, þar sem allir borðuðu nestið sitt og sprelluðu við gítarspil. Að því loknu héldu flestir niður aftur en þeir allra sprækustu fóru alla leið á toppinn til að leita betur að álfum og óskasteinum.