Sveppaferð í Heiðmörkina 21. ágúst

Sveppir eru algert sælgæti og það sem er skemmtilegast við þá - þeir vaxa villtir í íslenskri náttúru! Það er hins vegar afar mikilvægt að þekkja þá ætu og góðu frá þeim vondu og jafnvel eitruðu.


Gísli Már Gíslason, prófessor í líffræði við Háskóla Íslands og fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands, ætlar að leiða göngufólk í allan sannleika um sveppi í fjörugri göngu sem verður miðvikudaginn  21. ágúst. Mæting er kl. 17 á bílastæði við Rauðhóla og er þátttaka með öllu ókeypis. Ekið verður í halarófu frá bílastæðinu við Rauðhóla lengra inn í Heiðmörkina og ætla má að ferðin í heild sinni taki um 2 klst.
Gangan á miðvikudaginn er árviss haustfagnaður fyrir alla fjölskylduna þar sem sveppum er safnað í Heiðmörkinni og hvetur Gísli Már fólk til að koma með körfur eða ílát undir fenginn.

Ætir sveppir eru um land allt
Sveppagangan hefur sum sé unnið sér fastan sess í tilverunni og þarna hafa fjölskyldur notið fegurðar Heiðmerkur og fróðleiks á sama tíma um sveppi. Gísli Már verður ekki einn á ferð við að leiðbeina því hann mætir  ásamt fjölda nemenda sem allir hafa sérþekkingu á íslenskum sveppum.

"Um 2.100 tegundir sveppa er skráðar á Íslandi og á hverju ári bætast við nýjar tegundir í þennan sérstaka flokk lífvera," segir Gísli Már og bætir því við að sumar sveppategundir hafi m.a. flust hingað með trjátegundum því margar þeirra eigi sveppi sem sambýlisveru, t.d. lerki og fura.

Að Gísla sögn getur það reynst flókið að finna æta sveppi því um tvö þúsund sjálfstæðar tegundir sveppa og sjö hundruð tegundir fléttna vaxa á Íslandi.  "Fléttur eru sambýli svepps og þörunga. Af allri þessari fungu eru aðeins um 30 tegundir sveppa æta á Íslandi og bragðast vel.  Þar af eru aðeins rúmlega tíu borðaðar reglulega. Sumar flétturnar eru einnig ætar, þar á meðal fjallagrös og hreindýramosi."

Hægt er að finna æta sveppi um land allt og því má reikna með að vel beri í veiði á miðvikudag í Heiðmörkinni sem er kjörlendi fyrir sveppi.  "Bestu sveppasvæðin landsins eru á Vesturlandi, í Borgarfirði og á Snæfellsnesi og á Vestfjörðum en þar má finna kóngssveppi og kantarellur," segir Gísli Már.

Fjóluhelma, iltrektla, kúalubbi, fótgíma og mjúkfísi
Í ferðinni í Heiðmörk á miðvikudag verður ekki bara sveppunum safnað því fróðleikur um verkun og eldun fylgir með. Sveppir þrífast alla jafna nálægt trjágróðri. Nöfn á sveppum á íslensku eru mörg hver algerlega mögnuð en á miðvikudag er mögulegt að göngufólk finni gráserk, grávönd, anístrektlu, glanstrefil, gullkornhettu, slímgump, guleggjahelmu, furusvepp, fjóluhelmu, iltrektlu, kúalubba, grænhneflu, fótgímu og mjúkfísi en þeir dafna allir nærri trjám eins og í Heiðmörk.  Svo má kannski finna gulltoppu, sem er eitruð," segir Gísli Már,  "og líka lerkisveppi, gullbrodda og sortukúlu."

Gísli Már segir að framangreindar tegundir séu ekki allar ætar "en þessar tegundir eru hins vegar gómsætar furusveppur, kúalubbi, lerkisveppur, sortukúla, fótgíma, mjúkfísi og slímgumpur."

Við matreiðslu sveppa er allra mikilvægast að fólki viti að það hafi æta tegund á milli handanna. Næstmikilvægast er að elda eða steikja sveppi vel því sumir geta valdið magaverkjum ef þeir eru ekki eldaðir nógu lengi.

Þátttakendur eru hvattir til að taka með sér sveppabækur og ílát fyrir sveppina eins og áður sagði en gangan er hluti af samstarfi  Ferðafélags Íslands og Háskóla Íslands undir yfirskriftinni "Með fróðleik í fararnesti" sem hefur staðið frá aldarafmæli skólans árið 2011.

Í ferðunum blandast reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskóla Íslands saman í áhugaverðum gönguferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess. Ferðin á miðvikudag er farinn í samvinnu við Ferðafélaga barnanna sem er sproti innan Ferðafélags Íslands en Háskólinn og Ferðafélag barnanna hafa unnið saman að fjölda ferða undanfarin ár.

Meiri upplýsingar
Greining á ætum sveppum:
https://www.fi.is/static/files/ferdir/aukaefni/greining-a-aetum-sveppum.pdf

Matreiðsla á ætum sveppum:
https://www.fi.is/static/files/ferdir/aukaefni/villisveppir.pdf

Nánari upplýsingar um ferðina:
https://www.fi.is/is/ferdir/sveppasofnun-i-heidmork