Nú þegar umferð ferðamanna nær hámarki vill Ferðafélag Íslands hvetja alla ólíka ferðahópa til að sýna tillitssemi í ferðum sínum um náttúru landsins og bæði sýna ólíkum ferðamáta tillitssemi og ekki síður að ganga vel um náttúruna og sýna öllu dýralífi virðingu. Ferðafélag Íslands hvetur útivistarfólk til að virða alla stíga og merkingar og vill árétta að reiðstígar eru ætlaðir hestum og hestamönnum.
Það er mikilvæg regla er að virða alla stíga og merkingar í samræmi við þá umferð sem eiga að vera á stígum. Ef um stíga þar sem gert er ráð fyrir fleiri en einum ólíkum ferðamáta, t.d. umferð gangandi, hlaupandi og hjólandi, þá er góð regla að víkja til hliðar og hægja á sér eða stoppa. Hjólreiðafólk er hvatt til þess að hjóla ekki á merktum reiðstígum og ef hjólreiðafólk og hestamenn mætast á opnum vegum, t.d. á hálendinu, þá er góð regla að stíga af hjólinu.
Hér eru nokkrar góðar reglur sem allir ferðafélagar ættu að hafa í huga fyrir ferðalög sumarsins:
- Ísland er ævintýraeyja og það eru forréttindi að geta ferðast um landið okkar fallega. Til eru fjölmörg ferða- og útivistarfélög og mismunandi aðferðir til að ferðast um landið. Ferðafélag Íslands leggur áherslu á að það sé pláss fyrir alla til að ferðast um og njóta útivistar en mikilvægt sé að fylgja reglum og leiðbeiningum og sýna ólíkum ferðamáta tillitssemi. Það má gera með því að hægja á sér, víkja, stoppa, drepa á vélinni, allt eftir atvikum og aðstæðum. Ekki er verra að bjóða góðan daginn, kinka kolli eða brosa.
- Gott samstarf við landeigendur. Það er sjálfsögð kurteisi að hafa samband við landeigendur og fá leyfi til að fara um land og láta vita af ferðum sínum.
- Góð umgengni í náttúrunni. Ferðafélagið ber virðingu fyrir náttúrunni og sýnir það í verki með góðri umgengi. Í raun eru allir ferðafélagar landverðir og erum meðvituð um spor okkar og áhrif. Við veljum stikaðar og merktar leiðir þar sem það er hægt, fylgjum stígum þar sem það er hægt, notum ekki stafi ef þeir skemma náttúruna, t.d. í mosa, förum úr skónum ef þeir valda raski í viðkvæmu landi, týnum upp rusl sem við sjáum og leiðbeinum öðrum ferðamönnum ef á þarf að halda.
- Um leið og við berum virðingu fyrir náttúrunni berum við líka virðingu fyrir dýraríkinu og sýnum að gæslu og tillitssemi í samskiptum okkar við öll dýr sem verða á vegi okkar, þar má sem dæmi nefna fugla og hreiður, refi, yrðinga og greni, húsdýr bænda o.s.frv.
- Öryggi í ferðum sem er það mikilvægasta fyrir hvern þann sem ferðast um í náttúru landsins. Ábyrgð ferðamanns felst m.a. í að tryggja góðan undirbúning, góðan búnað, kanna veðurspár og vera undirbúinn fyrir þær aðstæður sem eru framundan í ferðalaginu.
- Í vondu veðri, slæmu skyggni, mikilli þoku höldum við hópnum okkar þétt saman og tryggjum að leiðir skilji ekki á milli fremsta og aftasta manns.
- Um leið höfum við allan fjarskipta- og öryggisbúnað og tryggjum að fjarskiptatæki séu í lagi og virki.
- Ef við þurfum að breyta ferð, hætta við eða taka ákvarðanir vegna öryggis þátttakenda þá gerum það að sjálfsögðu.
- Besta reglan sem við eigum, ef við erum ekki örugg með aðstæður, er að snúa frá, hætta við, koma seinna.